Vísindin eru ein meginstoð lýðræðislegs samfélags og þau þjóna sameiginlegum hagsmunum þjóða og stuðla að upplýstum ákvörðunum í þágu almennings. Þetta er megininntak Vísindagöngunnar sem farin verður frá Skólavörðuholti í dag.
Vísindagangan er alþjóðlegur viðburður sem á rætur að rekja í vísindasamfélaginu í Bandaríkjunum. Gengið er í mörgum borgum víðs vegar um heiminn á árlegum Degi Jarðar sem er í dag 22. apríl. Vísindafélag Íslendinga stendur fyrir göngunni hér á landi.
Að göngunni lokinni verður efnt til fundar í Iðnó þar sem rætt verður um þá hættu sem steðjar að vísindastarfi og vísindafólki. Framsögumenn verða Ashley Mears, dósent í félagsfræði við Boston University, Halldór Björnsson, haf- og veðurfræðingur við Veðurstofu Íslands, og Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við Lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Gangan hefst klukkan 13:00 í dag á Skólavörðuholti og eru allir velkomnir.
Vísindin eiga undir högg að sækja
Á undanförnum árum og áratugum hefur afstaða almennings til vísinda og staðreynda breyst á þann veg að nú séu skoðanir jafnvel settar til jafns við sannanlegar staðreyndir.
Hugmyndin að vísindagöngunni varð til í Bandaríkjunum í upphafi árs en þar fer gangan fram í dag í skugga „þeirra breytinga sem hafa orðið á umhverfi vísindamanna og vísindalegrar afstöðu við ákvarðanatöku í Bandaríkjunum frá því að stjórn Donalds Trump tók við.“ Svona er sagt frá hugmyndinni að göngunni á Facebook-síðu göngunnar.
„Stefnumörkun nýrra valdhafa mun hafa víðtæk áhrif um allan heim og takmarka möguleika vísindamanna til þess að stunda rannsóknir og miðla þekkingu sinni og uppgötvunum. Því horfumst við í augu við mögulega framtíð þar sem fólk virðir ekki einungis vísindalega þekkingu að vettugi heldur reynir að útiloka hana algerlega.“
„Hér á landi liggur fyrir fjármálaáætlun á vegum ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára sem gerir ráð fyrir að hákskólakerfið verði áfram fjársvelt og niðurskurði á samkeppnissjóðum á næsta ári,“ segir um hið íslenska umhverfi vísindanna.
Fjármálaáætlunin liggur nú hjá fjárlaganefnd Alþingis. Umsagnarfrestur um þessa þingsályktunartillögu rann út í gær, föstudag. Í tillögunni eins og hún var lögð fyrir þingið í lok mars er gert ráð fyrir að framlög til háskólastigsins verði aukin úr 41,6 milljörðum króna á árinu 2017 í 44,4 milljarða árið 2022.
Vísindin sem hornsteinn lýðræðisins
Vísindi miða að því að auka skilning okkar á veröldinni sem við búum í. Vísindi eru tæki sem gera okkur kleift að auka við og endurmeta þekkingu okkar. Þess vegna eiga vísindin við allar mannverur, ekki aðeins þær sem eru í valdastöðum.
Vísindin greina og spyrja spurninga um veröldina okkar. Skilningur okkar á veröldinni er alltaf að breytast og nýjar spurningar eru að vakna. Með tækjum vísindanna er mögulegt að svara spurningunum og byggja betri stefnumál og betra regluverk sem þjónar almenningi betur. Þannig má færa rök fyrir því að vísindi séu mikilvægur hlekkur í lýðræðiskerfi.
Stjarneðlisfræðingurinn Neil deGrasse Tyson – sem Íslendingar þekkja af sjónvarpsskjánum sem leiðsögumann um alheiminn í vísindaþáttunum Cosmos – er einn þeirra vísindamanna sem hafa lagt mikið á sig til að minna á mikilvægi vísindanna. Í tilefni af Vísindagöngunni vestanhafs ræðir Tyson um vísindin á áhrifamikinn hátt í meðfylgjandi myndbandi.