Efnisveitan Netflix hefur tekið ákvörðun um að byrja að þýða eigið efni á íslensku og hefur þegar hafið leit að fyrstu þýðendunum til að þýða þætti sem fyrirtækið framleiðir sjálft yfir á íslensku. Um er að ræða skjátexta, ekki talsetningu. Þetta er gert í gegnum kerfi sem kallast HERMES og Netflix hleypti af stokkunum fyrir nokkrum vikum sem á að tryggja að Netflix hafi ávallt úr nægum fjölda þýðenda að velja út um allan heim, nú þegar viðskiptavinir þess eru mun víðar en einungis í hinum enskumælandi heimi. Frá þessu er greint á heimasíðu þýðingastofunnar Skopos.
Í mars var greint frá því að 44 prósent heimila á Íslandi séu með áskrift að Netflix og að fjöldi þeirra hafi tvöfaldast frá því að fyrirtækið opnaði formlega fyrir þjónustu sína hérlendis í janúar 2016. Áður hafði tæpur fjórðungur landsmanna verið með áskrift í gegnum erlendan aðgang.
HERMES-kerfið er hannað til þess að prófa kunnáttu umsækjenda í ensku og færni þeirra til að þýða texta yfir á eigið tungumál. Áhugasamir geta sótt um að gerast þýðendur, og farið í gegnum prófunarferilinn, hér.
Í frétt Skopos segir að fram til þess hafi Netflix átt mjög erfitt með að hafa yfirsýn yfir þýðendur og leggja mat á hæfni þeirra. „HERMES inniheldur þúsundir spurninga sem valdar eru af handahófi og eiga að tryggja að engin tvö próf séu eins. Auk þess að prófa tungumálakunnáttu umsækjenda er tækni- og málfræðikunnátta þeirra einnig könnuð og auðvelt er að laga prófið að mismunandi kröfum. Samanlagt tekur það umsækjendur yfirleitt um 90 mínútur að ljúka við prófið og hver þýðandi fær ákveðið númer, svokallað H-númer, sem auðkennir hann í framtíðinni og gerir Netflix kleift að rekja þýðingar til einstakra þýðenda.“