Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að hann muni óska eftir því formlega við ríkisskattstjóra að öll opinber gögn um starfsemi fyrirtækja og eignarhald verði gerð aðgengileg á netinu, og án endurgjalds. Hann reiknar með því að þetta verði gert á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Í dag þarf að greiða fyrir aðgang að ársreikningum fyrirtækja og öðrum upplýsingum um starfsemi þeirra, annað hvort með því að kaupa þær beint frá embætti ríkisskattstjóra eða í gegnum endursöluaðila á borð við Creditinfo.
Benedikt segir við RÚV að hann telji rétt að gera þessi gögn aðgengileg ókeypis á Íslandi. „Já, ég er alveg eindregið þeirrar skoðunar. Ég held að það eigi að vera mjög opið hverjir eiga fyrirtæki. Ársreikningar eiga að vera opnir, og ég tel að það eigi að ganga jafnvel lengra, þannig að ef það eru fyrirtæki sem eiga fyrirtæki þá eigi menn að vita hverjir standa á bakvið, hvar eru einstaklingarnir sem endanlega standa á bakvið. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt fyrir opna umræðu um atvinnulífið.“
Benedikt sagði í sérstakri umræðu á Alþingi um skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera, sem fram fór 25. janúar síðastliðinn, að hann vildi að ársreikningar, hluthafaskrár og fyrirtækjaskrár ættu að vera öllum opnar. „Ég tel að allar þessar skrár eigi að vera að vera opnar og vil bæta því við að ég tel að það eigi að vera gagnsætt eignarhald, þannig að það sé ekki bara sagt að það séu einhver félög sem eigi önnur félög. Það á að koma fram hver hinn endanlegi eigandi er.“