Hampiðjan í Ástralíu hefur náð samningi um sölu á 120 rækjutrollum til Austral Fisheries, eins stærsta útgerðarfyrirtækis í Ástralíu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Aðeins tæp tvö ár eru síðan útibú Hampiðjunnar var opnað í Ástralíu eða í október árið 2015 og er fyrirtækið þegar „orðið leiðandi í sölu á veiðarfærum í áströlskum sjávarútvegi,“ segir í Morgunblaðinu.
„Við seljum veiðarfæri um alla Ástralíu. Allar stærstu útgerðirnar versla eingöngu við okkur,“ segir Þorsteinn Benediktsson, framkvæmdastjóri Hampidjan Australia, í viðtali við Morgunblaðið.
Hampiðjan er rótgróið fyrirtæki og hefur rekstur þess verið stöðugur á undanförnum árum. Í lok árs í fyrra átti fyrirtækið eignir upp á 194 milljónir evra, eða sem nemur um 22,8 milljörðum króna. Hagnaðurinn í fyrra nam 14,5 milljónum evra, eða sem nemur um 1,7 milljörðum króna.