Bill Gates, ríkasti maður heims og stofnandi Microsoft, ásamt Paul Allen, segir að þrjár greinar muni skipta miklu máli þegar kemur að uppbyggingu í atvinnulífi framtíðar. Það séu grunnfög eins og vísindi, þar sem rannsóknarstarf fer fram, verkfræði og síðan hagfræði.
Mikilvægi góðrar þekkingar í stærðfræði muni aukast og skilningur á verkfræðilegum þáttum, til dæmis í tölvuvæddum heimi, verði afar mikilvægur.
Í samtali við CNBC segir Gates að hæfni í forritun verði ekki aðalatriðið, heldur frekar skilningur á því hvernig hlutir muni ganga fyrir sig. „Það verður mikilvægt fyrir fólk að skilja hvað verkfræðin mun geta leyst, og hvað ekki,“ segir Gates.
Hann hefur talað fyrir því, ekki síst að undanförnu, að miklar breytingar séu framundan í efnahagslífi heimsins, meðal annars vegna gervigreindar og aukinnar sjálfvirkni í iðnaði, sem muni breyta vinnuaflsþörf verulega. Þannig muni mörg störf hverfa og ný störf verða til.
Gates hefur sagt að mikilvægt sé fyrir samfélög að kortleggja vel hvernig þau séu undirbúin fyrir þessar breytingar, og þá þurfi stjórnmálamenn einnig að vinna hratt að því að móta lög og reglur fyrir þennan nýja veruleika.
Fyrr á árinu sagði Gates það ekki vitlausa hugmynd að skattleggja vélmenni sem muni taka við störfum af fólki, og innleiða borgaralaun sem tryggja fólki lágmarksframfærslu.
Samkvæmt lista Forbes var Gates ríkasti maður heims í fyrra, en hann hefur verið númer eitt á lista í átján skipti af síðustu 24 árum. Hrein eign Gates er metin upp á meira en 80 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um níu þúsund milljörðum króna.