Róbert H. Haraldsson hefur verið ráðinn nýr sviðsstjóri kennslusviðs Háskóla Íslands frá 15. apríl 2017. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.
Róbert lauk BA-prófi í heimspeki og sálarfræði frá Háskóla Íslands árið 1985 og doktorsprófi í heimspeki frá Háskólanum í Pittsburgh árið 1997.
Róbert hefur kennt við Háskóla Íslands frá árinu 1992 og verið prófessor í heimspeki frá árinu 2007.
Á árunum 2015-2016 sinnti Róbert stöðu gestaprófessors við Colgate-háskóla í New York-fylki í Bandaríkjunum (NEH distinguished professor of philosophy). Hann hefur einnig sinnt kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi.
„Róbert hefur sinnt margvíslegum trúnaðar- og stjórnunarstörfum innan Háskóla Íslands. Hann var formaður kennslumálanefndar háskólaráðs árin 2008-2014 og hefur einnig setið í fjármálanefnd og vísindanefnd háskólaráðs. Hann tók virkan þátt í mótun heildarstefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og 2011-2016 og hefur verið formaður ýmissa tímabundinna nefnda við háskólann sem lúta að kennslu, svo sem nefndar um brotthvarf nemenda (2007), og setið í starfshópi um þróun A-prófsins (2012-2014). Róbert hefur verið formaður námsbrautar í heimspeki, forstöðumaður Heimspekistofnunar, varadeildarforseti Hugvísindadeildar og formaður Félags háskólakennara,“ segir í tilkynningu frá HÍ.
Róbert hefur einnig starfað sem ráðgjafi með ýmsum fagfélögum, fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi, m.a. var hann formaður ráðgjafarnefndar Fjármálaeftirlitsins um hæfi stjórnarmanna fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga og lífeyrissjóða (2013-2015). Hann var meðritstjóri tímaritsins Skírnis árin 1995-2000 og norræna heimspekitímaritsins SATS árin 2001-2015.