Donald J. Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað alla 100 þingmenn öldungadeildar Bandaríkjaþings til fundar í Hvíta húsinu á miðvikudag, þar sem háttsettir embættismenn úr starfsliði forsetans munu upplýsa þá um þróun mála á Kóreuskaganum.
Varnarmálaráðherrann James Mattis og Rex Tillerson, utanríkisráðherra, verða í hópi þeirra sem fara yfir málin með öldungadeildarþingmönnunum, samkvæmt umfjöllun New York Times.
Bandarísk stjórnvöld hafa sagt að nauðsynlegt sé að taka ógnina frá Norður-Kóreu, með leiðtogann Kim Jong-Un fremstan í flokki, alvarlega.
Talið er að farið verði yfir allar helstu upplýsingar um stöðu mála í Norður-Kóreu, en í yfirlýsingum frá hinum óútreiknanlega Kim Jong-Un hefur komið fram að öllum hernaðartilburðum Bandaríkjanna verði mætt af mikilli hörku, og strax við minnstu tilraun til árásar verði stríð hafið.
Á undanförnum mánuðum og vikum hefur tilraunum Norður-Kóreu með langdræg flugskeyti fjölgað, og hafa þau skeyti sem hafa lent næst Japan verið í um 300 kílómetra fjarlægð frá landi. Nágrannarnir Suður-Kórea og Japan hafa fordæmt tilraunirnar harðlega og krafist frekari aðgerða af hálfu Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins. Undir þetta hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum tekið, og gott betur. Hafa hernaðarumsvif Bandaríkjahers á Kóreuskaga aukist jafnt og þétt og æfingum með Suður-Kóreu fjölgað.