Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og varaformaður Samtaka atvinnulífsins (SA), beindi þeirri spurningu til stjórnenda Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins í dag, hvort ekki kæmi til greina að niðurgreiða orkuverð til heimila og fyrirtækja í landinu, í stað þess að greiða arð til eigandans, íslenska ríkisins. (Sjá myndband, meðfylgjandi, 2:08.)
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, var snöggur að svara; „Því er auðsvarað, það yrði klárt lögbrot“ sagði Hörður, og benti á að lög væru alveg skýr með að það væri óheimilt að selja raforkuna undir kostnaðarverði. „Jafnvel þó við vildum það - og ég ætla ekki að segja að við viljum það - þá væri það bannað,“ sagði Hörður.
Rekstur Landsvirkjunar hefur smátt og smátt verið að styrkjast og arðsemi eigin fjár fyrirtækisins, samhliða niðurgreiðslu skulda, verið að batna. Á næstu árum er horft til þess að arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkisins geti aukist mikið, en fjallað var um þessa stöðu í ítarlegri grein Ketils Sigurjónssonar, lögfræðings og sérfræðings í orkumálum, á vef Kjarnans í gær
.Í lok árs í fyrra námu eignir Landsvirkjunar 4,3 milljörðum Bandaríkjadala, eða um 450 milljörðum íslenskra króna.
Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var ríflega 45,5 prósent og námu heildar rekstrartekjur 420 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 50 milljörðum króna.