Fjórir fjárfestingasjóðir sem ætluðu sér að fara í mál við íslenska ríkið vegna löggjafar um meðferð aflandskrónueigna hafa fallið frá því. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Sjóðirnir höfðu fengið heimild frá Hæstarétti til að leggja spurningar fyrir dómkvadda matsmenn vegna málsins en hafa nú fallið frá þeirri beiðni. Hæstiréttur hafði heimilað sjóðunum að bera upp fimm af þeim ellefu matsspurningum sem þeir fóru upphaflega fram á að fá rökstutt álit sérfróðra aðila á. Það var sjóðurinn Autonomy Capital sem upphaflega fór með málið fyrir dómstóla.
Í bréfi frá fulltrúum þessara sjóða til ríkislögmanns segir að í ljósi samkomulags Seðlabanka Íslands og sjóðanna um kaup bankans á aflandskrónum þeirra hafi verið ákveðið að falla frá beiðninni. Því er nú enginn útistandandi málarekstur á hendur ríkinu vegna framkvæmdar áætlunar stjórnvalda um afnám fjármagnshafta, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Sjóðirnir hótuðu málaferlum eftir að Alþingi samþykkti aflandskrónufrumvarp Bjarna Benediktssonar fyrir tæpu ári síðan, og aflandskrónueigendum voru settir afarkostir. Þá var þeim boðið að komast frá Íslandi með því að borga 190 krónur fyrir hverja evru, ef þeir gengu ekki að því færu þeir aftast í röðina við losun fjármagnshafta og eignir þeirra settar inn á nær vaxtalausa reikninga.
Flestir aflandskrónueigendur neituðu að taka þátt í þessu, en þess í stað fólu sjóðirnir lögmönnum að kanna grundvöll fyrir málshöfðun á hendur íslenska ríkinu, auk þess sem kvartað var til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna laganna.
Nú í vor hafa fulltrúar íslenskra stjórnvalda svo fundað með fulltrúum sjóðanna í aðdraganda afnáms haftanna. Þeim hefur boðist að greiða 137,5 krónur fyrir hverja evru, hagstæðara en þeim bauðst fyrir tæpu ári. Samkomulag hefur náðst við þessa sjóði sem þýðir að ekkert verður af þessum málaferlum.