Rekstur Össurar gekk vel á fyrstu þremur mánuðum ársins, að sögn Jóns Sigurðssonar, forstjóra fyrirtækisins, en sölutekjur fyrirtækisins jukust um 14 prósent. Hagnaður nam 1,1 milljarði króna á tímabilinu.
Sala nam 131 milljónum Bandaríkjadala (14,7 milljörðum íslenskra króna) samanborið við 114 milljón Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi 2016.
Markaðsvirði Össurar jókst um 2,2 prósent í dag og er verðmiðinn á fyrirtækinu nú tæplega 220 milljarðar. Þau fyrirtæki sem eru langsamlega verðmætust á íslenska markaðnum eru Marel og Össur, en verðmiðinn á Marel er nú 246 milljarðar króna, eða sem nemur um 25 prósent af öllu verðmæti hins skráða markaðar.
Jón segir í tilkynningu að hann sé ánægður með árangurinn á fyrsta ársfjórðungi. „Við erum ánægð með niðurstöðu fyrsta ársfjórðungs sem sýnir góðan innri vöxt og stöðuga arðsemi, en fyrsti ársfjórðungur er jafnan sá slakasti á árinu hjá okkur. EMEA og APAC sýndu góðan vöxt í fjórðungum og sala á stoðtækjum gekk vel í Ameríku. Söluvöxtur á heimsvísu var drifin áfram af hágæða vörunum okkar. Samþætting vegna kaupa á Touch Bionics og Medi Prosthetics gengur samkvæmt áætun og erum við spennt að sjá þau dafna.”
Eigið fé Össurar nemur nú um 470 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 60 milljörðum króna. Heildareignir félagsins voru metnar á 746 milljónir Bandaríkjadala í lok árs í fyrra, eða sem nemur um 85 milljörðum króna.