Engar sektir hafa verið gefnar út af hálfu sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu vegna auglýsinga á heimagistingu. Í nýjum lögum, sem tóku gildi um áramótin, segir að í öllum auglýsingum á starfsemi skráðrar heimagistingar skuli skráningarnúmer koma fram. Í reglugerð er þó veitt undanþága frá því að númerið sé lesið upp í útvarpi. Ef skráningarskyld starfsemi er auglýst án skráningarnúmers getur það varðað sekt allt að einni milljón króna.
Sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu er falið eftirlit með skráningarskyldum heimagistingum á landsvísu. Eftirlitið felur meðal annars í sér að fylgst er með bókunarsíðum á borð við Airbnb og booking.com. Þetta kemur fram í svari sýslumannsembættisins við fyrirspurnum Kjarnans. Einnig kemur fram í svari embættisins að í fjárlögum hafi verið gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til að sinna eftirlitshlutverkinu. Ekki fengust svör við hversu háar þær fjárveitingar voru, en í umsögn embættisins með frumvarpi laganna er áætlaður árlegur kostnaður með eftirlitinu 23.670.000 krónur. Auk þess var gert ráð fyrir rúmlega níu milljóna króna stofnkostnaði, meðal annars vegna uppsetningu á vefsíðu og forritunar vinnu.
Í óformlegri athugun Kjarnans á skráningarnúmerum, sem aðgengileg eru á heimasíðu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, komu skráningarnúmer hvergi fram í auglýsingum. Af þeim tuttugu gistingum sem flett var upp var aðeins ein auglýsing þar sem hluti skráningarnúmers kom fram. Í þeirri auglýsingu komu aðeins fyrstu tveir bókstafirnir, HG-, fram en öll skráningarnúmerin eiga þessa upphafsstafi sameiginlega, restina af númerinu vantaði.
Viðbrögð við gagnrýni á eftirlit
Samkvæmt svari sýslumannsembættis höfuðborgarsvæðisins voru breytingarnar á lögunum til þess ætlaðar að bregðast við gagnrýni á skort á eftirliti með heimagistingu. Einnig var þeim ætlað að bregðast við þróun á gistiframboði og leyfislausri starfsemi, meðal annars með því að einfalda regluverkið í kringum málaflokkinn. Samkvæmt lögunum mega tekjur af heimagistingu ekki vera hærri en tvær milljónir króna á ári og aðeins er heimilt að selja 90 gistinætur. Meðalverð gistinætur er því 22 þúsund krónur.
Í umfjöllun á vefnum turisti.is kemur fram að meðalverð gistinætur í heimagistingu er fjórum sinnum lægra í Svíþjóð, en þar er meðalverðið rúmar fimm þúsund krónur. Einnig kemur fram á turisti.is að erfitt sé að fylgjast nákvæmlega með hver veltan á þessum markaði er hér á landi þar sem tekjur á markaðnum eru taldar upp með mismunandi hætti. Dæmi eru um að tekjur vegna heimagistingar hafi verið ranglega atvinnugreinamerktar og í einhverjum tilvikum gefnar upp sem venjulegar leigutekjur.
Samkvæmt nýju lögunum er aðeins hægt að skrá til heimagistingar húsnæði sem skráningaraðili hefur til persónulegra afnota. Ef skráningaraðili er ekki eigandi fasteignarinnar sem skráð er þarf hann að hafa þar lögheimili og samþykki eiganda fasteignarinnar að liggja fyrir. Einnig getur eigandi fasteignar skráð fasteign aðra en lögheimili sitt til heimagistingar en ef svo ber undir má enginn annar vera skráður þar til lögheimilis. Ef fasteignin uppfyllir ekki þessi skilyrði eða fer fram úr fjölda leyfilegra gistinótta eða leyfilegum hámarkstekjum telst hún vera atvinnuhúsnæði.
Við nánari athugun blaðamanns Kjarnans á fyrrnefndum skráningarnúmerum kom í ljós að fyrsta skráningarnúmerið sem gefið var út tilheyrði íbúð sem auglýst er ásamt tveimur öðrum íbúðum á sameiginlegu vefsvæði og undir sameiginlegu nafni. Önnur þeirra íbúða er einnig skráð sem heimagisting hjá sýslumannsembættinu hin ekki. Verð á þeim gistingum eru frá tæplega 22 þúsund krónur til rúmlega 50 þúsund króna hver nótt. Einnig fundust dæmi um sveitagistingar þar sem auglýstar voru gistinætur allt árið í kring og verðskrá gefin upp bæði fyrir vetrar og sumartíma. Í engum þessara tilfella kom skráningarnúmer fram í auglýsingu.