Fréttatíminn hefur ekki greitt í lífeyrissjóð fyrir að minnsta kosti hluta af starfsmönnum sínum frá því síðla árs í fyrra. Þetta segir Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Fréttatímanum, í pistli á Stundinni. Þetta kemur til viðbótar því að hluti starfsmanna hefur ekki enn fengið greidd laun sem áttu að greiðast um síðustu mánaðamót. Ingi Freyr er einn þeirra.
Ingi Freyr segir í pisli sínum að Gunnar Smári Egilsson, þáverandi ritstjóri og útgefandi Fréttatímans, hafi sagt við starfsfólkið í febrúar síðastliðnum að framtíð fjölmiðlafyrirtækisins væri tryggð. Hann hafi talað starfsfólk á blaðinu af því að taka atvinnufyrirtækjum frá öðrum fyrirtækjum og hækkað laun.
„Nú í apríl, eftir að rekstrarerfiðleikar Fréttatímans urðu fjölmiðlaefni og blaðið hætti að koma út, sagði Gunnar Smári starfsmönnum hins vegar frá því að Fréttatíminn hefði verið „í nauðvörn“ rekstrarlega frá því í október á síðasta ári. Þá hefur einnig komið í ljós að um svipað leyti, síðla árs í fyrra, hætti Fréttatíminn að greiða í lífeyrissjóð fyrir að minnsta kosti hluta af starfsmönnum fyrirtækisins. Myndin sem starfsmenn Fréttatímans fengu af rekstrarstöðu blaðsins var því allt önnur en sú rétta,“ skrifar Ingi Freyr.
Greint var frá því fyrr í vikunni að Fréttatíminn yrði settur í þrot á næstu dögum. „Nú er Fréttatíminn á leiðinni í gjaldþrot með tilheyrandi fjárhagslegum skaða fyrir starfsmenn blaðsins, hluthafa þess, kröfuhafa og íslenska ríkið.“
Það voru ekki bara starfsmenn blaðsins sem fengu ranga mynd af rekstrinum, segir Ingi Freyr, heldur líka hluthafar og flestir aðrir. „Hann hélt stöðu fyrirtækisins mjög þétt að sér enda hefur verið ljóst lengi að reksturinn stæði ekki undir sér.“
Þegar reksturinn var kominn í óefni og ljóst að blaðið gat ekki haldið áfram að koma út vegna taprekstrar og fjárskorts þá var Gunnar Smári sá fyrsti af starfsmönnunum sem yfirgaf fyrirtækið, segir Ingi Freyr, „og notaðist í upphafi við þá tylliástæðu að hann væri að fara að stofna sósíalistaflokk en svo breytti hann sögu sinni þannig að hann hefði verið rekinn.“ Aðrir hluthafar Fréttatímans hafi hins vegar haldið áfram að benda starfsmönnum blaðsins á að tala við Gunnar Smára og framkvæmdastjórann um stöðuna, sem sé venjulega ekki gert þegar búið sé að reka menn. „Niðurstaðan hlýtur að vera sú að Gunnar Smári hafi sjálfur tekið ákvörðun um að hætta daglegum störfum fyrir Fréttatímann þegar í óefni var komið. Eftir sitja hluthafar, kröfuhafar og starfsmenn með fjárhagslegt tap af og hinir síðastnefndu eru í algjörri óvissu um tekjuöflun sína á næstu mánuðum.“
Ekki skrýtið að starfsfólki blöskri og sárni
Ingi Freyr segir að starfsfólk Gunnars Smára og Fréttatímans hafi spurt hann hvort það gæti ekki komið niður á trúverðugleika blaðsins að ritstjóri og eigandi blaðsins væri með Facebook-síðu sem hann kenndi við Sósíalistaflokk Íslands. Þetta hafi verið um svipað leyti og hann hafi sagt starfsfólkinu að reksturinn væri tryggður í vetur.
„Gunnar Smári svaraði því til að þetta væri bara Facebook-grúppa og að ekki stæði til að stofna slíkan flokk enda er varla hægt að vera bæði eigandi og ritstjóri dagblaðs sem vill láta taka sig alvarlega og formaður stjórnmálaflokks.“
En nú í apríl hefur Gunnar Smári opinberlega unnið að stofnun Sósíalistaflokks Íslands, og er að skipuleggja stofnfund 1. maí.
Allt framferði hans gagnvart starfsfólki og öllum hlutaðeigandi getur aldrei orðið gott veganesti inn í stjórnmálastarf, að mati Inga Freys. „Þegar þetta starfsfólk Fréttatímans horfir svo upp á Gunnar Smára byrja að taka skyndiákvörðun um stofnun sósíalistaflokks mitt í rústum blaðsins sem hann lagði grunninn og sem starfsfólkið hélt þar til nýlega að ætti sér framtíð vegna orða hans þar um, er ekki alls ekki óeðlilegt að því sárni og jafnvel blöskri tvískinningurinn. Gunnar Smári býður svo þessu sama starfsfólki og glímir nú við fjárhagslega óvissu vegna ákvarðana hans á stofnfund Sósíalistaflokks Íslands þann 1. maí í gegnum samskiptamiðilinn Facebook.“