Hafliði Helgason, fyrrverandi viðskiptaritstjóri 365 miðla, er nýr framkvæmdastjóri Hringbrautar, sem rekur sjónvarpsstöð og vefmiðil. Hann tekur við starfinu af Guðmundi Erni Jóhannssyni sem verður áfram sjónvarpsstjóri Hringbrautar og jafnframt sölu-og markaðsstjóri.
Hafliði starfaði á Fréttablaðinu á árunum 2001 til 2007 þegar hann réð sig til starfa hjá Reykjavík Energy Investment (REI). Síðar starfaði hann meðal annars hjá Framtakssjóði Íslands en snéri aftur í fjölmiðlun í ágúst 2016 þegar hann var ráðinn ritstjóri efanhags- og viðskiptafrétta hjá fréttastofu 365. Hann staldraði þó stutt við og lét af störfum í lok síðasta árs, þegar Hörður Ægisson var ráðinn í hans stað.
Töluverðar breytingar hafa verið hjá Hringbraut að undanförnu. Rakel Sveinsdóttir hætti sem framkvæmdastjóri í lok mars og fjárfestirinn Jón Von Tetzhner hvarf úr eigendahópi miðilsins. Guðmundur, fráfarandi framkvæmdastjóri, er enn skráður stærsti eigandi Hringbrautar með 65 prósent hlut en Sigurður Arngrímsson, fjárfestir, á 19 prósent hlut. Rakel á enn 16 prósent hlut í fyrirtækinu en sá hlutur er í söluferli.