Miðað við áætlaðar fjárveitingar fyrir næsta skólaár þarf Menntaskólinn við Sund að taka inn þriðjungi færri nýnema nú en í fyrra. Þetta segir Már Vilhjálmsson, rektor skólans.
„Þetta hefur náttúrulega slæmar afleiðingar, til dæmis hjá þeim sem eru að kenna námsefni sem hugsað er fyrst og fremst fyrir nýnema, það er 33 prósenta niðurskurður í kennslumagni hjá þeim og það er ekkert sem blasir við annað en tilfærslur og uppsagnir. Fjárveitingar miðast við heildarnemendafjölda en hann getur breyst á milli ára. Það er alveg rétt að innritun nýnema er miklu minni en undanfarin ár og færri en við sjálf myndum kjósa.“
Már segir að nú þegar séu fleiri nemendur við skólann en gert hafi verið ráð fyrir, en ákvarðanir um fjárveitingar byggi á heildarfjölda nemenda í skólanum en ekki fjölda í hverjum árgangi.
Samkvæmt Má eru ástæðurnar fyrir nemendafjöldanum einkum tvær. Önnur ástæðan er innleiðing á nýju þriggja anna kennslukerfi sem er til þriggja ára og á að leysa hið hefðbundna fjögurra ára stúdentsnám af hólmi. „Það er ákveðin bólga sem fylgir því að vera með tvö kerfi sem ekki er hægt að komast hjá, til dæmis vegna þess að kennsluáfangarnir eru ólíkir í kerfunum.“
Hin ástæðan sem Már nefnir er að nýja kerfið hefur dregið verulega úr brotthvarfi nemenda. Það hefur gert það að verkum að nemendur eru fleiri en gert var ráð fyrir, þar sem færri hurfu frá námi en áætlað var. Már segir að hann sé ósáttur við að „þurfa að skera niður vegna þess að það gengur vel að ná markmiðum ráðuneytis að draga úr brotthvarfi, mér fyndist frekar að horfa ætti á það með velþóknun heldur en að setja okkur rekstrarlega í vandræði.“
Í Hvítbók: Um umbætur í menntun sem gefin er út af hálfu menntamálaráðuneytisins er meðal annars sett fram það markmið að draga skuli úr brotthvarfi nemenda á framhaldsskólastigi. Már segir að skólinn geti sýnt fram á það tölfræðilega að dregið hafi verulega úr brotthvarfi frá skólanum. Það sé þó ekki tekið tillit til þess þegar kemur að því að ákvarða fjárveitingar til skólans. „Ráðuneytið stendur fast á því að við verðum að fækka nemendum í skólanum. Til þess að halda heildarfjöldanum réttum.“
Ráðuneytið með í ráðum
Már segir að þriggja anna kerfið sem skólinn hefur tekið upp hafi verið hannað og skipulagt af starfsmönnum skólans. Það hafi þó verið gert eftir þeim reglum sem menntamálaráðuneytið setur.
Ráðuneytið setur ákveðin skilyrði til dæmis varðandi einingafjölda og inntak lykilgreina á borð við íslensku, ensku og stærðfræði. „Svo búa skólarnir til námskránna og hún þarf að fara í samþykktarferli bæði upp í Menntamálastofnun og svo er námskráin staðfest og birt í Lögbirtingarblaðinu. Þannig það er enginn skóli sem kemst upp með að vera með nám sem ekki er samþykkt af ráðuneytinu.“
Már segir að kostnaðurinn við að mennta hvern nemenda sé svipaður í báðum kerfunum en þó hugsanlega örlítið lægri í þriggja ára kerfinu. Þetta gerir það að verkum að kostnaður við hvern nemenda á ársgrundvelli er hærri í þriggja ára kerfinu, þar sem heildarkostnaður við menntun deilist á þrjú ár í stað fjögurra. „Það kostar alveg jafn mikinn pening að mennta þá, þeir eru bara með meira vinnuálag heldur en hinir.“
Óþarflega erfiður rekstrargrundvöllur
Már segir að skólinn sé einn af fjórum vinsælustu skólum landsins. Forinnritun er búin hjá þeim nemendum sem eru að færast af grunnskólastigi yfir á framhaldsskólastigið og segir hann aðsókn í skólann vera góða. „Miðað við stærð skóla þá erum við alveg í toppnum í landinu, einn af fjórum efstu skólanum, þannig að nemendur vilja koma hingað.“
Hann segir ekkert því til fyrirstöðu að taka inn fleiri nemendur annað en skortur á fjárveitingum. „Við höfum húsnæði til að taka á móti þeim, það er búið að byggja við húsnæðið fyrir einn og hálfan milljarð og hanna skóla fyrir 850 manns.“
Fjárveitingar til skólans eru svipaðar og síðustu ár en Már segir vandamálið sé aðallega að ekki er tekið tillit til þess hversu margir eru í skólanum nú þegar og því komast ekki allir að sem vilja. „Það virðist vanta einhvern sveigjanleika í kerfinu að bregðast við. Vegna þess að nemendur fá val. Þeir fá val um að velja sér skóla og brautir og svo framvegis. Þá er voðalega erfitt að vera með þetta svona niðurneglt að segja bara svona er þetta alveg sama hvað þeir vilja.“
Már telur þó alvarlegustu áhrifin af ósveigjanleika kerfisins þó vera á rekstrarstöðugleika skólans. „Það versta í þessu öllu saman er að það er eiginlega vonlaust að reka skóla með svona miklum sveiflum. Það verður að vera einhver stöðugleiki í þessu. Það er ekki hægt að reka skóla þar sem maður er ýmist að reka eða ráða fólk. Það verður að vera jafnvægi bæði upp á starfsfólk og nemendur.“