Kínversk stjórnvöld eru sögð hafa hvatt þá Kínverja sem búsettir eru í Norður-Kóreu til að snúa aftur heim til Kína, vegna ótta um að upp úr sjóði í deilum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu.
Þetta kemur fram á vef Independent, og er vitnað til umfjöllunar í Times í Suður-Kóreu. Það er sendiráð Kína í Norður-Kóreu sem á að hafa látið þessi boð út ganga til Kínverja í landinu.
Í Norður-Kóreu búa 25 milljónir manna. Í Suður-Kóreu eru íbúar um tvöfalt fleiri, eða ríflega 50 milljónir.
Samkvæmt umfjöllun New York Times hefur Bandaríkjaher nú sett upp fullkomið loftskeytavarnarkerfi á landamærum ríkjanna og sjóherinn er tilbúinn til að grípa til aðgerða á hafi úti, hvenær sem er.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa hvergi dregið úr yfirlýsingum sínum og segjast tilbúin í stríð hvenær sem er. Þá hefur tilraunum þeirra með flugskeyti fjölgað að undanförnu, en þrjú síðustu skot hafa misheppnast.
Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, hefur sagt að Bandríkin muni gera það sem þurfi til að tryggja öryggi. Ef Bandaríkjaherinn þurfi að taka málin í sínar hendur einn þá muni hann gera það.