Niðurstaða athugunarinnar hjá FME lá fyrir í síðasta mánuði og er hún byggð á gögnum og upplýsingum miðað við stöðuna eins og hún var á þeim tíma þegar athugunin hófst, segir í tilkynningu FME sem birt var á vef stofnunarinnar í dag.
Er stjórn Borgunar sérstaklega tiltekin í athugasemdum FME og hún gagnrýnd fyrir framkvæmd áhættustýringar, ónægt eftirlit með starfsemi og að lögboðnir verkferlar væru ekki fyrir hendi.
Athugunin hófst upphaflega með bréfi FME til Borgunar fyrir tæpu ári, 27. maí í fyrra.
Í stjórn Borgunar eru Erlendur Magnússon, formaður stjórnar, Björg Sigurðardóttir, Halldór Kristjánsson, Óskar Veturliði Sigurðsson, og Sigrún Helga Jóhannsdóttir. Íslandsbanki, sem er dótturfélag íslenska ríkisins, er stærsti eigandi fyrirtækisins, með 63,5 prósent hlut, Eignarhaldsfélagið Borgun slf. á 30,9 prósent og BPS ehf. 3,5 prósent.
Orðrétt segir í tilkynningu FME: „Gerð var athugasemd við að skipulag áhættustýringar Borgunar væri ekki nægjanlega skýrt og gagnsætt og því ekki í fullu samræmi við 17. gr. fftl., þ.m.t. vöktun á áhættu, sem á að vera á ábyrgð stjórnenda og starfsmanna einstakra eininga Borgunar (svokölluð fyrsta varnarlína samkvæmt þriggja þrepa eftirlitslíkani) og eftirlit með því hvernig áhættustýringu er sinnt, sem á að vera á ábyrgð áhættustýringarsviðs Borgunar (svokölluð önnur varnarlína) en það samanstendur af einum starfsmanni. Samkvæmt stefnu Borgunar um áhættustýringu og innra eftirlit, áhættustefnu félagsins og öðrum gögnum, virðist sem efnahagsnefnd og rekstraráhættunefnd sinni verkefnum er varða áhættustýringu og ættu að vera á forræði áhættustjóra eða stjórnar Borgunar. Umræddar nefndir eru m.a. skipaðar forstöðumönnum tekjusviða Borgunar auk forstjóra.
Einnig voru gerðar athugasemdir við að lögboðnir verkferlar varðandi
áhættustýringu væru ekki til staðar hjá Borgun og að skýrslugjöf
áhættustýringar til stjórnar Borgunar hafi ekki verið í samræmi við stefnu
félagsins um áhættustýringu og innra eftirlit,“ segir í tilkynningunni.
Í umfjöllun FME er stjórn Borgunar gagnrýnd fyrir að hafa ekki sinnt lögboðnu hlutverki sínu, þegar kemur að upplýsingagjöf.
Orðrétt segir í tilkynningu FME: „Gerð var athugasemd við að stjórn hafi í tvígang á árinu 2015 látið hjá líða að
senda Fjármálaeftirlitinu uppfærðar starfsreglur. Gerð var athugasemd við að í fundargerðum stjórnar á tímabilinu 19. febrúar
2015 til 15. mars 2016 voru ekki í öllum tilfellum tilgreind með skýrum hætti þau
málefni sem voru til umræðu og hvaða ákvarðanir voru teknar. Athugasemd var gerð við að stjórn hafi ekki látið færa til bókar allar
athugasemdir innri endurskoðanda í úttektum hans á árunum 2014 og 2015
sem sem hann mat mikilvægar, sbr. einnig 3. mgr. 16. gr. fftl. Þá voru gerðar athugasemdir við að stjórn Borgunar sinnir hvorki því hlutverki
sínu að sjá til þess að verklag alþjóðasviðs sé skjalfest með fullnægjandi hætti
né hefur stjórn eftirlit með því að á alþjóðasviði sé unnið samkvæmt skjalfestu
verklagi. Athugun Fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós að verulega skortir á að verklag
alþjóðasviðs sé uppfært reglulega og að starfsmenn sviðsins vinni í samræmi
við verklag og stefnur sem alþjóðasvið hefur sett sér. Ennfremur var gerð athugasemd við að stjórn Borgunar hefur ekki sett félaginu
stefnu sem greinir hagsmunaárekstra,“ segir í tilkynningu FME.