Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), segir í inngangi að ársskýrslu eftirlitsins að það sé ljóst af umræðunni um söluna á hlut í Arion banka, að Íslendingum sé umhugað um að stjórnarhættir sem tíðkuðust í aðdraganda fjármálaáfallsins 2008 endurtaki sig ekki.
Þá nefnir hún sérstaklega að slitabú Kaupþings og Glitnis, þar sem vogunarsjóðirnir voru og hafa verið með þræðina í hendi sér, hafi á sínum tíma verið metin óhæf til að fara með beina eignarhluti í bönkunum. „Þjóðfélagsumræðan sem spannst af því að tæplega þriðjungur hlutafjár Arion banka skipti nýlega um hendur var óvenju tilfinningarík. Ljóst er að Íslendingum er umhugað um að stjórnarhættir sem tíðkuðust í aðdraganda fjármálaáfallsins 2008 endurtaki sig ekki. Erlendir fjárfestingarsjóðir keyptu hlutina af Kaupþingi en fyrir Fjármálaeftirlitinu liggur það verkefni að meta hæfi þeirra til að eiga virka eignarhluti. Slitabú Kaupþings og Glitnis voru á sínum tíma talin óhæf til að vera virkir eigendur en áttu eftir sem áður bankana að mestu leyti samkvæmt samkomulagi um uppgjör á milli stjórnvalda og kröfuhafa. Málið var leyst samkvæmt þágildandi lögum með stofnun eignarhaldsfélaga sem báru ábyrgð á að bönkunum væri stjórnað í armslengdarfjarlægð frá eigendum þeirra,“ segir Unnur.
Í mars síðastliðnum keyptu vogunar- og fjárfestingasjóðir um 30 prósent hlut í Arion banka. Félagið Sculptor Investments s.a.r.l. keypti 6,6 prósenta hlut í Arion banka en það er í eigu Och-Ziff Capital Management, sem hefur verið töluvert í umræðunni að undanförnu vegna mikilla erfiðleika í rekstri og lögbrota sem bandríska dómsmálaráðuneytið sekta það fyrir í september í fyrra. Samtals nam sektin 213 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 25 milljörðum króna.
Kaupskil ehf., félag í eigu Kaupþings, á 57,9 prósent hlut í Arion banka, íslenska ríkið 13 prósent, vogunarsjóður í eigu Taconic Capital Advisors 9,9 prósent, Attestor Capital LLP 9,9 prósent og Goldman Sachs 2,6 prósent.
Unnur segir í inngangsorðum sínum í skýrslunni að þáttur í því að meta hæfi þessara nýju eigenda er að horfa í gegnum beint og óbeint eignarhald á bankanum. „Þrátt fyrir að nú sé um eitt og hálft ár liðið frá því að nauðasamningar voru gerðir, með skuldbindingu slitabúanna til að greiða stöðugleikaframlag í ríkissjóð, eru skilyrðin enn í gildi varðandi aðkomu Kaupþings og nýrra eigenda Arion banka að rekstri hans. Brýnt er að vinda ofan af þessu fyrirkomulagi og að aðeins þeir sem teljast hæfir samkvæmt lögum og mati Fjármálaeftirlitsins verði virkir eigendur bankans. Þáttur í því verður að meta hæfi Kaupþings og horfa í gegnum beint og óbeint eignarhald fjárfestingarsjóðanna sem nýverið keyptu beinan eignarhlut í Arion banka,“ segir Unnur.