Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur ákveðið að verða við beiðni Ólafs Ólafssonar um að mæta á fund nefndarinnar. Þetta var ákveðið á fundi nefndarinnar í morgun, og að auki var ákveðið að fundurinn verður opinn fjölmiðlum. Þetta segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og varaformaður nefndarinnar, en hann fer fyrir nefndinni í umfjöllun um einkavæðingu Búnaðarbankans og aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á bankanum.
RÚV greinir frá þessu. Í Fréttablaðinu í morgun kom fram að Ólafur hefði sent nefndinni formlegt erindi um að fá að koma fyrir nefndina, en eins og Kjarninn hefur greint frá hafði hann áður aðeins sagt opinberlega að hann vildi mæta fyrir nefndina, en ekki sent erindi þess efnis til hennar.
„Í því erindi gefur hann til kynna að hann geti varpað frekara ljósi á málavexti og stutt það mál sitt með gögnum og á þeirri forsendu var ákveðið að hafa hann einn af þeim sem koma fyrir nefnina til þess að ræða þessi mál,“ segir Jón Steindór við RÚV.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, Brynjar Níelsson og Njáll Trausti Friðbertsson, töldu að fundurinn með Ólafi ætti að vera lokaður. Brynjar er formaður nefndarinnar en hefur sagt sig frá umfjöllun um málið vegna þess að hann var um tíma verjandi Bjarka Diego í sakamáli sem snerist um meint efnahagsbrot. Bjarki er einn þeirra sem gegndi lykilhlutverki í þeirri fléttu sem ofin var í kringum kaupin.
„Ég er ekki viss um að hann eigi að vera í beinni útsendingu ef hann á að nýtast okkur eitthvað. Þá er þetta allt komið á þvæling á meðan við erum á viðkvæmum stað í skoðuninni. Þá er hætt við að þessi umræða fari út og suður áður en við ljúkum okkar vinnu. Það getur verið óþægilegt fyrir okkur en það er mitt mat. Við munum svo ræða það nánar í nefndinni,“ sagði Brynjar við Fréttablaðið á dögunum.
Líkt og Kjarninn hefur greint frá hefðu almenningur og fjölmiðlar ekki fengið upplýsingar um fundinn ef hann hefði verið lokaður, þar sem ólöglegt er fyrir nefndarmenn að greina frá því sem gestir segja á lokuðum nefndarfundum.