Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra, spurði Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, ítrekað að því hvort hún hygðist ekki segja af sér embætti eftir að Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið jafnréttislög árið 2011. Nú hefur sama nefnd komist að þeirri niðurstöðu að Bjarni hafi brotið gegn jafnréttislögum þegar hann var fjármálaráðherra.
Jóhanna spyr á Facebook-síðu sinni hvað Bjarni ætli sér að gera nú þegar nefndin hafi úrskurðað að hann hafi brotið jafnréttislög.
„Bjarni Benediktsson spurði mig ítrekað hvort ég teldi ekki tilefni til afsagnar þegar Kærunefnd jafnréttismála taldi mig hafa brotið jafnréttislög árið 2011. Í því tilviki hafði karl verið metinn hæfastur en konan, sem kærði, hafði verið í fimmta sæti í hæfnismati. Síðar kom fram í áliti Umboðsmanns Alþingis að kærunefndin hefði ekki sýnt fram á að ég hefði brotið jafnréttislög. Í tilviki Bjarna voru kona og karl metin jafnhæf og karlinn ráðinn. Bjarni taldi það á sínum tíma óskiljanlega þrjósku af mér að viðurkenna ekki einfaldlega að ég hefði brotið jafnréttislög. Pólitísk ábyrgð væri ráðherrans og því tilefni til afsagnar, að hans mati,“ segir Jóhanna.
Ábyrgðin er ráðherrans
Bjarni, þá í stjórnarandstöðu sem formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Jóhönnu meðal annars um málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þinginu í mars 2011. „Nú ber ég það upp við hæstvirtan forsætisráðherra hvort hún sé ekki örugglega alvarlega að íhuga afsögn. Er það ekki eina leiðin fyrir ráðherrann til að standa undir þeim stóru orðum sem hafa fallið bæði um jafnréttislöggjöfina og um ráðherraábyrgð í gegnum árin?“ spurði Bjarni.
Jóhanna svaraði því til að hún teldi engin efni til að segja af sér, enda hafi hún talið fyllilega faglega staðið að ráðningu skrifstofustjóra í ráðuneyti hennar.
„Það gengur ekki fyrir hæstvirtan forsætisráðherra að tína það til sem einhver rök í þessu máli að það sé í lagi að ganga gegn niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála vegna þess að sérfræðingur sem kom að málinu hafi komist að annarri niðurstöðu. Þetta stenst enga skoðun. Ábyrgðin er ráðherrans,“ sagði Bjarni þá.
Líkt og Kjarninn greindi frá í gær hefur Kærunefnd jafnréttismála nú komist að þeirri niðurstöðu að Bjarni hafi brotið jafnréttislög þegar hann skipaði karl í embætti skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu í fyrra. Kona sem sótti um starfið kærði skipunina til kærunefndarinnar þar sem hún taldi sig hafa verið hæfari en hann til að gegna starfinu. Hún væri með töluvert meiri og víðtækari reynslu en sá sem var skipaður. Í ljósi þess að fimm karlar og þrjár konur skipi embætti skrifstofustjóra hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og ein kvennanna sé sett tímabundið í forföllum karlkyns skrifstofustjóra halli á konur hvað varðar skipan í embætti skrifstofustjóra hjá ráðuneytinu. Því taldi konan að henni hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis og vísaði í lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna því til stuðnings.
Kærunefnd jafnréttismála tók undir þetta og sagði fjármála- og efnahagsráðuneytið ekki hafa sýnt fram á að aðrar ástæður en mismunun á grundvelli kynferðis hafi legið til grundvallar því að konan var ekki skipuð í starfið.