Tölvupóstar sem fullyrt er að komi frá kosningaskrifstofu Emmanuel Macrons, að því er segir í umfjöllun Reuters og fleiri fjölmiðla, var í gær lekið á netið.
Frakkar velja sér nýjan forseta á sunnudag, í annarri umferð kosninganna, og mun miðjumaðurinn Macron þá keppa við Marine Le Pen um forsetastólinn. Macron hefur talað fyrir mikilvægi samvinnu Evrópuþjóða, meðal annars á vettvangi Evrópusambandsins, á meðn Le Pen talar fyrir aðskilnaði frá Evrópusambandinu og þjóðernishyggju þegar kemur að efnahagsmálum. Hún segist vilja burt úr ESB og evrunni sömuleiðis.
Skoðanakannanir hafa til þessa bent til þess að Macron væri nokkuð öruggur að hafa sigur á Le Pen, en síðustu kannanir hafa bent til þess að hann nyti hylli um 60% Frakka á móti 40% Le Pen.
Macron hefur í þessari viku þurft að svara fyrir orðróm um að hann eigi aflandsreikning á Bahama og hefur hann lagt fram kæru vegna þess, og þverneitar að fela eignir í skattaskjólum.
Í yfirlýsingu frá framboði Macrons er tölvuárásin fordæmd, en jafnframt tekið fram að það mikla magn gagna, sem stolið var, sýni fyrst og fremst eðlilega og löglega hluti.
Mikil spenna er í Frakklandi vegna kosninganna. Er talið að kosningaþátttaka muni skipta miklu máli, og vinnu þá mikil kosningaþátttaka freka með Macron.