Fyrsta H&M verslunin á Íslandi verður opnuð í Smáralind í ágúst. Frá þessu er greint í tilkynningu frá verslanakeðjunni. Þar er haft eftir Filip Ekvall svæðisstjóra, H&M í Noregi og á Íslandi, að verslunarkeðjan hafi lengi vitað að beðið hafi verið eftir komu hennar hingað til lands. Hann segir í tilkynningu að fyrirtækið hlakki mikið til að geta hrifið með sér þjóðina og staðið undir væntingum.
Búið er að ráða starfsfólk í fyrirhugaðar verslanir H&M á Íslandi og segir Ekvall að keðjan hafi fundið frábært teymi. Verslunin sem opnuð verður í Smáralind í ágúst mun bjóða upp á allar fatalínur H&M, þar á meðal dömu- og herrafatnað, barnaföt, skó, aukahluti, undirföt og snyrtivörur. Auk þess mun verslunin fá sérstakar línur í sölu eins og H&M Studio og Conscious Exclusive.
Alls er fyrirhugað að opna þrjár H&M verslanir hérlendis. Hinar tvær verða annars vegar í Kringlunni og hins vegar á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur. Í Kringlunni verður opnuð í 2.600 fermetra verslunarrými á annarri hæð í norðurlenda Kringlunnar seinni hluta árs 2017. Áratugum samanb hefur verið rekin Hagkaupsverslun í rýminu.
Þrátt fyrir að H&M, sem er ein stærsta fataverslunarkeðja heimsins, hafi aldrei rekið verslun hér á landi, þá hafa rannsóknir sýnt að markaðshlutdeild fyrirtækisins í fatainnkaupum Íslendinga er mikil og stöðug.
Kjarninn fjallaði um stöðuna eins og hún birtist hjá notendum heimilisfjármálahugbúnaðarins Meniga, fyrir árið 2013. Tæp 37 prósent notenda Meniga verslaði í H&M. Tekjuhærri hópar versla mun oftar en þeir tekjulægri. Þannig versluðu 26 prósent tekjulægsta hópsins í H&M í samanburði við 47 prósent þeirra tekjuhæstu.
Lítill sem enginn munur var á meðalupphæð sem keypt var fyrir í hvert sinn eftir tekjuhópum, en hún var rúmar 15 þúsund krónur. Sama má segja um heildarupphæð sem þeir vörðu í H&M á árinu 2013, en hún nam að meðaltali 32 þúsund krónum.
Sé litið til heildarinnar þá var markaðshlutdeild H&M 22 prósent í fatainnkaupum Íslendinga, þrátt fyrir að engin verslun hafi til þess verið staðsett á landinu. Líklegt verður að teljast að innreið H&M hingað til lands geti haft veruleg áhrif á verslun hér á landi, sé mið tekið af þessum tölum.