Ásberg Jónsson, eigandi ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor, telur að stigvaxandi gengi krónunnar hafi gert það að verkum að Ísland sé orðið of dýrt, og að merki þess séu þegar farin að sjást. „Sala er að aukast mikið til Noregs, Lapplands og Skotlands. Það er ekki enn hægt að kalla þetta samdrátt en ferðamenn eru farnir að breyta ferðamynstri sínu með því að kaupa styttri ferðir,“ segir Ásberg í samtali við Morgunblaðið í dag.
Hann bendir jafnframt á að hann óttist samdrátt ferðamanna frá Evrópu til Íslands. „Þegar verð hækkar 20-30% milli ára er stór hópur sem fer frekar til Noregs eða Skotlands,“ segir Ásgeir.
Krónan hefur styrkst töluvert gagnvart helstu viðskiptamyntum undanfarna mánuði, og kostar Bandaríkjadalur nú 105 krónur. Fyrir einu og hálfu ári kostaði hann tæplega 140 krónur. Evran kostar nú um 116 krónur en hún kostaði 150 krónur fyrir einu og hálfu ári.
Flestar spár hafa gert ráð fyrir áframhaldandi vexti í ferðaþjónustu næstu misserin, en í fyrra komu til landsins 1,8 milljónir erlendra ferðamanna. Á þessu ári hafa spár gert ráð fyrir að 2,2 til 2,4 milljónir ferðamanna heimsæki landið.