Nauðsynlegt er að huga að því að styrkja framhaldsskólakerfið með meira samstarfi milli skóla eða sameiningum, til að kerfið geti mætt þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir.
Þetta kom fram í máli Kristjáns Þórs Júlíussonar, mennta- og menningarmálaráðherra, á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun. Fundurinn var haldinn vegna frétta um áform stjórnvalda um að sameina Tækniskólann og Fjölbrautarskólann við Ármúla.
Fækkun nemenda og stytting náms til stúdentsprófs valda því að framhaldsskólastigið er að ganga í gegnum miklar breytingar, sagði Kristján Þór. Menntamálaráðuneytið hefur skoðað samstarf og sameiningar framhaldsskóla frá árinu 2013, þar sem stærri skólar ráði betur við nemendafjölda og geti boðið upp á fjölbreyttara nám.
Kristján Þór sagði miður að ótímabær umræða um þessa ákveðnu sameiningu hafi farið af stað áður en allar upplýsingar lágu fyrir, en sagðist vona að það yrði ekki til að spilla fyrir málinu. Vinna við hugsanlega sameiningu hófst í febrúar, í samráði við starfsfólk ráðuneytisins og forsvarsmenn skólanna tveggja. „Það stóð til að þessi vinna væri lengra komin þannig að svör lægju fyrir þegar að hugmyndin væri lögð fram til kynningar fyrir hagsmunaaðila,“ sagði hann. Vonir hans stæðu til að hægt verði að taka yfirvegaða ákvörðun á grundvelli vinnunnar sem nú stendur yfir.
Ráðherra sagðist hafa sannfæringu fyrir því að verið væri að styrkja það nám sem er fyrir hendi í skólunum. Það kunni hins vegar að vera að rannsóknarvinnan sem nú stendur yfir muni leiða í ljós vankanta á sameiningunni. „Þá verður það mín niðurstaða að slá þetta af, ef niðurstaða greiningarinnar verður á þann veg.“