Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja á Íslandi stendur í stað milli ára, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Konur eru 25,9 prósent stjórnarmanna í fyrirtækjum á Íslandi. Frá árinu 1999 hefur hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hækkað úr 21,3 prósentum í 25,9 prósent.
Þegar litið er til fyrirtækja með 50 eða fleiri starfsmenn voru konur 32,3 prósent stjórnarmanna í lok síðasta árs.
Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja tóku að fullu gildi hér á landi í september 2013 og samkvæmt þeim ber fyrirtækjum með 50 eða fleiri starfsmenn að tryggja að hlutfall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 prósentum. Árið eftir það náði hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja af þessari stærð hámarki, fór upp í 33,2 prósent, en hefur síðan farið lækkandi aftur.
Konum fjölgaði lítillega í stöðum framkvæmdastjóra í fyrra, en hlutfall þeirra fór úr 21,9 prósenti í 22,1 prósent. Samkvæmt því voru 2.932 konur í stöðu framkvæmdastjóra hér á landi í lok ársins 2016. Hagstofan greinir tölurnar einnig eftir greinum, og í aðeins einni þeirra eru konur í meirihluta framkvæmdastjóra. Það er í félagasamtökunum og annarri þjónustustarfsemi, þar sem konur eru 64 prósent framkvæmdastjóra. Í fræðslustarfsemi eru konur 45,6 prósent framkvæmdastjóra og 39,6 prósent í heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Í lok síðasta árs voru konur 23,9 prósent stjórnarformanna landsins. Það gera 3.691 konu sem gegndi slíku starfi. Aftur eru konur eingöngu í meirihluta stjórnarformennskustarfa í félagasamtökum og annarri þjónustustarfsemi, þar sem þær eru 58 prósent stjórnarformanna. Sömu sögu er svo að segja af stjórnarmennsku kvenna, þær eru í meirihluta stjórna félagasamtaka og annarrar þjónustustarfsemi, en hvergi annars staðar.