Ólafur Ólafsson mun koma á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á miðvikudag í næstu viku. Þetta staðfestir Jón Steindór Valdimarsson, framsögumaður nefndarinnar, við RÚV.
Fundurinn verður opinn fjölmiðlum, en nefndin ákvað það á fundi sínum í síðustu viku. Ólafur óskaði formlega eftir því að mæta á fund nefndarinnar vegna umfjöllunar hennar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á einkavæðingu Búnaðarbankans á sínum tíma. Í erindi sínu gaf hann til kynna að hann gæti varpað frekara ljósi á málavexti og stutt það mál með gögnum, og því var ákveðið að leyfa honum að koma fyrir nefndina.
Nefndin sem rannsakaði aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á stórum hlut í Búnaðarbankanum árið 2003 skilaði skýrslu sinni 29. mars síðastliðinn. Í niðurstöðum hennar segir að sannreynt hafi verið með ítarlegum skriflegum gögnum að Ólafur Ólafsson, samstarfsmenn hans, stjórnendur hjá Kaupþingi og nokkrir erlendir samstarfsmenn, meðal annars innan Hauck & Aufhäuser, hefðu hannað fléttu sem sett var á svið í kringum kaupin. Í henni fólst að Kaupþing fjármagnaði meint kaup Hauck & Aufhäuser á hlut í Búnaðarbankanum, endanlegur eigandi þess hlutar var aflandsfélagið Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjunum og baksamningar tryggðu Hauck & Aufhäuser algjört skaðleysi af aðkomu sinni. Slíkir samningar tryggðu einnig að allur ávinningur af fléttunni, sem varð á endanum yfir 100 milljónir dala, skiptist á milli aflandsfélags Ólafs Ólafssonar og aðila sem tengdust Kaupþingi. Á gengi ársins 2005 nam sú upphæð 6,8 milljörðum króna. Í dag er hún um 11 milljarðar króna. Ekki var greint frá neinu ofangreindu opinberlega heldur því haldið fram að þýski bankinn væri raunverulega að kaupa hlutinn og hefði fjármagnað kaupin sjálfur. Með fléttunni voru stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur blekktir.
Fjórir lykilmenn í málinu voru boðaðir til skýrslutöku fyrir nefndina á meðan að vinnu hennar stóð, en neituðu að mæta. Um er að ræða Ólaf Ólafsson, Guðmund Hjaltason, Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurð Einarsson. Þegar rannsóknarnefndin beindi því til Héraðsdóms Reykjavíkur að boða þá kröfðust þrír þeirra þess að dómari viki sæti í málinu. Þeirri beiðni var hafnað.
Þegar beiðni rannsóknarnefndarinnar var tekin aftur fyrir í byrjun desember 2016 báru bæði Ólafur og Guðmundur brigður á að þeim væri skylt að svara spurningum nefndarinnar. Þessu var hafnað af Hæstarétti 17. janúar 2017. Skýrslur voru loks teknar af mönnunum í lok janúar og byrjun febrúar.