Ólafur Ólafsson vill fá að koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingi til að færa rök fyrir því að hann „hafi ekki blekkt ríkið“ þegar S-hópurinn keypti 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum. Hann vill einnig fá tækifæri til að lýsa sinni hlið „á því hvernig pólitísk afskipti komu mér fyrir sjónir í ferlinu“. Þetta kemur fram í bréfi sem Ólafur sendi Brynjari Níelssyni, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, þann 27. apríl síðastliðinn sem Kjarninn hefur undir höndum.
Í bréfinu leggur Ólafur fram formlega beiðni um að fá að koma á fund nefndarinnar. Fyrr í dag var greint frá því að Ólafur muni koma fyrir nefndina næstkomandi miðvikudag. Sá fundur verður opin fjölmiðlum.
Skýr niðurstaða rannsóknarnefndar
Rannsóknarnefnd sem rannsakaði aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003 skilaði af sér skýrslu 29. mars síðastliðinn.
Helstu niðurstöður nefndarinnar voru þær að stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hefðu verið blekktir við söluna. Ítarleg gögn sýni með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu. „Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.“
Auk þess komst nefndin að því að síðari viðskipti á grundvelli leynisamninganna hafi vert það að verkum að Welling & Partners hefði hagnast um rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem hafi verið greiddar til tveggja aflandsfélaga, Marine Choice Limited í eigu Ólafs Ólafssonar og Dekhill Advisors Limited sem ekki liggja óyggjandi upplýsingar fyrir hver á né hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.
Segir kynningu á skýrslunni hafa verið einhliða
Ólafur segir í bréfinu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að kynning á skýrslu rannsóknarnefndarinnar, umræða og öll umfjöllun um skýrsluna hafi verið mjög einhliða. „Það er mér mikilvægt, þótt seint sé, að nefndin fái að heyra mína hlið, sem er önnur sem sú sem er lýst í skýrslunni,“ segir Ólafur. Hann vilji færa rök fyrir því að hann hafi „ekki blekkt ríkið í umræddum viðskiptum, slíkt sé óhugsandi. Í umræðu um þetta mun ég fara nánar yfir aðdraganda sölunnar, benda á nokkur atriði þessari fullyrðingu minni til stuðnings og benda á misfellur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem ég tel vera afvegaleiðandi“.
Ólafur segir enn fremur að í skýrslunni séu höfð uppi stór orð um það sem nefndir séu baksamningar og leynisamningar og að hann vilji gera grein fyrir aðdraganda og eðli þessara samninga.
Svo segir Ólafur: „Í skýrslunni er ekkert fjallað um stjórnmálaástandið í landinu á sínum tíma, pólitísk afskipti, markmið, einkavæðingarferli bankanna í víðara samhengi og ógagnsæjar forsendur. Ég vil fá tækifæri til að lýsa minni hlið á því hvernig pólitísk afskipti komu mér fyrir sjónir í ferlinu“.
Ólafur segir í bréfinu að hann geri sér grein fyrir því að hann eigi enga lögvarða kröfu til að fá að hitta nefndina en í ljósi þess að hann sé borinn þungum sökum í skýrslunni og hafi ekki notið andmælaréttar, þá finnist honum rétt að setja beiðnina fram. Ólafur telur sig þurfa 40-45 mínútur til að setja fram sín sjónarmið og er tilbúinn að svara spurningum í framhaldinu.
Við rannsókn nefndarinnar var tekinn vitnisburður af Ólafi. Þar sagði hann að eftir því sem hann best vissi væru allar þær upplýsingar sem íslenska ríkinu voru veittar um kaupin, og kynntar voru í fjölmiðlum samhliða kaupum, hafi verið réttar og nákvæmar. Gögn sem nefndin hefur undir höndum sýna þó með óyggjandi hætti fram á að svo er ekki.