Samkeppniseftirlitið hefur nú til rannsóknar samkeppnisleg áhrif samruna Fjarskipta hf. (Vodafone) og 365 miðla hf. (365 miðlar). Þar sem um er að ræða samruna sem geti varðað almenning miklu hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að óska opinberlega eftir sjónarmiðum almennings og fyrirtækja í þágu rannsóknarinnar.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá eftirlitinu.
Til þess að gefa öllum kost á að kynna sér málið hefur eftirlitið ennfremur birt samrunatilkynningu málsins á heimasíðu sinni undir samrunskrár. Er sú tilkynning sem þar er birt án trúnaðarupplýsinga. „Samhliða hinni opinberu birtingu samrunatilkynningarinnar hefur Samkeppniseftirlitið sent beiðni um umsögn og upplýsingar til fyrirtækja á viðkomandi mörkuðum. Auk þess hefur Samkeppniseftirlitið óskað umsagnar frá opinberum stofnunum sem annast eftirlit samkvæmt lögum um fjölmiðla og fjarskipti. Er þess óskað að sjónarmið og gögn berist eftirlitinu eigi síðar en 26. maí nk.,“ segir í tilkynningunni.
Fullnægjandi samrunatilkynning barst Samkeppniseftirlitinu þann 27. apríl 2017. Frá og með 28. apríl byrjuðu frestir Samkeppniseftirlitsins til að rannsaka samrunann að líða skv. 17. gr. d samkeppnislaga, sbr. 9. gr. reglna um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum. Frá þeim degi hefur Samkeppniseftirlitið 25 virkra daga til að taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Reynist svo vera, hefur eftirlitið 70 virka daga til viðbótar til að taka ákvörðun í málinu.
Í mars síðastliðnum var tilkynnt um kaup Vodafone á 365, að undanskildu Fréttablaðinu. Kaupverðið er allt að 7,8 milljarðar króna.