Monica Caneman hefur ákveðið að láta af stjórnarsetu í Arion banka en hún hefur gegnt stjórnarformennsku í bankanum frá árinu 2010. Guðrún Johnsen, sem hefur verið varaformaður á tímabilinu, tekur við sem stjórnarformaður bankans.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Arion banka. Í stjórn Arion banka eru auk Guðrúnar, Þóra Hallgrímsdóttir, Jakob Ásmundsson, Brynjólfur Bjarnason, John P. Madden, Kirstín Þ. Flygenring og Måns Höglund.
Monica segir í tilkynningunni að nýlegar breytingar á eignarhaldi marki ákveðin þáttaskil í starfsemi bankans. „Ég tók við stjórnarformennsku í Arion banka á árinu 2010. Það hefur verið afar ánægjulegt að taka þátt í uppbyggingu bankans á undanförnum sjö árum og upplifa þær jákvæðu breytingar sem hafa átt sér stað. Þetta hefur verið viðburðaríkur tími þar sem bankinn, rétt eins og íslenskt efnahagslíf, hefur styrkst á öllum sviðum. Arion banki nýtur nú góðrar stöðu á þeim mörkuðum sem hann starfar og er fjárhagslega sterkur,“ er haft eftir Monicu.
„Mikilvægasti drifkraftur bankans er frábært starfsfólk sem hefur staðið sig virkilega vel á undanförnum árum við að byggja upp góðan banka. Nýlegar breytingar á eignarhaldi bankans marka ákveðin þáttaskil. Frekari breytingar á eignarhaldi munu eiga sér stað á næstunni og nýr kafli er því að hefjast. Ég tel rétt á þessum tímapunkti að láta öðrum eftir stjórnarformennsku. Ég þakka stjórnarmönnum bankans, stjórnendum og starfsfólki öllu fyrir farsælt samstarf á undanförnum sjö árum og óska Arion banka velfarnaðar í framtíðinni,“ segir hún í fréttatilkynningu.
Eftir kaupin, sem tilkynnt var um í mars, er Kaupskil, félag í eigu Kaupþings, enn stærsti eigandi Arion banka með 57,9 prósent hlut. Íslenska ríkið á 13 prósent en sjóðirnir Attestor Capital LLP (í gegnum Trinity Invesment Designated Acitivity Company) og Taconic Capital Advisors UK LLP (í gegnum TCA New Sidecar III s.a.r.l.) eiga nú 9,99 prósent hlut hvor. Þá mun Sculptor Investments s.a.r.l. (félag tengt Och-Ziff Capital Management Group) eiga 6,6 prósent hlut og Goldman Sachs International 2,6 prósent hlut (í gegnum ELQ Investors II Ltd.).
Fjármálaeftirlitið er nú að vinna að mati á þessum nýju eigendum, en auk þess hefur skráning bankans á markaðverið í undirbúningi.