Hugbúnaðarfyrirtækið Tempo, dótturfélag Nýherja hefur birt niðurstöður fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2017, og jukust tekjur félagsins um 46 prósent frá sama tímabili í fyrra.
Heildartekjur Tempo á tímabilinu námu 4,4 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 470 milljónum króna.
Gengi bréfa Nýherja hækkaði um 2,99 prósent í dag og er markaðsvirði Nýherja nú 14,2 milljarðar króna.
Tekjur Tempo frá stofnun hafa aukist samfellt og á tímabilinu náðist sá áfangi að fjöldi viðskiptavina fór yfir 10.000. Tíuþúsundasti viðskiptavinurinn reyndist þýska stórfyrirtækið Mercedes Benz.
„Við erum afar ánægð með árangurinn, umsvifin hafa aukist umtalsvert, sem og tekjurnar. Mercedes Benz bættist í hópinn sem 10.000 viðskiptavinurinn en fyrirtækið keypti allar vörur Tempo fyrir starfsemi sína í Bandaríkjunum og bætist þar í hóp með bílaframleiðendum á borð við BMW, Volkswagen, Mazda, Audi, Scania, Volvo og Skoda,” segir Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo, í tilkynningu.
„Vöxturinn hefur leitt til þess að það stefnir í tvöföldun á starfsmannafjölda utan Íslands, en Tempo hefur starfsstöðvar í Montreal í Kanada og San Francisco í Bandaríkjunum. Horfurnar framundan eru mjög góðar og við gerum ráð fyrir svipuðum tekjuvexti og uppbyggingu áfram,” segir Ágúst.
Samstarfs- og söluaðilar á heimsvísu eru nú komnir yfir 100 talsins og nú starfar um fimmtungur starfsmanna fyrirtækisins í Norður-Ameríku. Gert er ráð fyrir enn frekari fjölgun starfsmanna hjá fyrirtækinu á komandi misserum.
Tempo þróar hugbúnaðarlausnir sem er ætlað að hjálpa fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum að vinna á auðveldari og skilvirkari hátt. Viðskiptavinir Tempo eru fyrirtæki um allan heim, allt frá sprotafyrirtækjum í Fortune 500 fyrirtæki, eins og Amazon, BMW, Pfizer, HomeAway, PayPal, Hulu, Dell, Mercedes Benz, Starbucks, Porsche og Disney. Tempo er dótturfélag Nýherja og var formlega stofnað 1. febrúar 2015. Hjá Tempo vinna um 90 starfsmenn, bæði á Íslandi og í Norður Ameríku.
Kjarninn heimsótti fyrirtækið fyrir þremur árum, þegar það var að hefja sig til flugs, ef svo má segja.