Verðmætasta hlutafélag í heimi í dag, sé horft til markaðsvirðis miðað við skráð gengi í gær, er hugbúnaðarrisinn Apple. Verðmiðinn á fyrirtækinu er nú kominn í 811 milljarða Bandaríkjadala eða sem nemur tæplega 90 þúsund milljörðum krónum.
Framundan er hjá fyrirtækinu að kynna nýja vöru, iPhone 8, en á þessu ári eru tíu ár frá því að frumkvöðullinn Steve Jobs kynnti fyrsta iPhone símann, sem gjörbreytti farsíma- og hugbúnaðargeiranum. „Ég er búinn að bíða eftir þessum degi í tvö og hálft ár,“ sagði Jobs áður en hann kynnti símann til sögunnar.
Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar á þessum áratug, og ótrúlegar tækniframfarir átt sér stað, ekki síst vegna möguleika sem opnuðust með snjallsímunum.
Velgengni Apple á þessum tíma hefur verið með ólíkindum, og raunar án fordæma í viðskiptasögunni. Fyrirtækið hefur selt meira en milljarð símtækja og mörg hundruð milljónir eintaka af spjaldtölvum og öðrum varningi, og lagt grunninn að stórveldinu sem fyrirtækið er orðið.
Tim Cook, forstjórinn sem tók við stjórnartaumunum þegar Steve Jobs lést úr krabbameini, segir að Apple muni ekki síst einblína á Asíumarkað í framtíðinni, og hefur nefnt Indland sem helsta hávaxtarsvæðið.
Eitt af því sem gerir stöðu Apple óvenjulega þessi misserin er lausafjárstaða fyrirtækisins. Fyrirtækið á 256 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé frá rekstri (Cash on hand), eða sem nemur um 30 þúsund milljörðum króna. Ekkert fyrirtæki utan fjármálageirans á nándar nærri jafn mikið af lausu fé til umráða.
Upphæðin dugar til að kaupa allan íslenska hlutabréfamarkaðinn 25 sinnum, og ríflega það. Apple gæti líka keypt Morgan Stanley bankann (88 ma. USD), Goldman Sachs (79 ma. USD), Tesla (55 ma. USD) og stóran hlut í Netflix (67 ma. USD), fyrir þessa fjárhæð, svo dæmi sé tekið.