Markaðsvirði Vátryggingafélags Íslands (VÍS) lækkaði um 3,45 prósent í viðskiptum dagsins, og er markaðsvirði félagsins nú 24,9 milljarðar króna. VÍS lækkaði mest allra félaga í dag, en vísitalan lækkaði um 0,61 prósent.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í morgun, þá ákváðu þrír lífeyrissjóðir að selja hlutabréf í VÍS á dögunum, þar sem þeir voru óánægðir með stjórnarhætti í félaginu.
Þeir ákváðu að minnka verulega stöðu sína í VÍS í kjölfar þess að Herdís D. Fjeldsted, fyrrverandi stjórnarformaður félagsins, sagði sig úr stjórn þess, meðal annars vegna óánægju með stjórnarhætti. Núverandi stjórnarformaður félagsins er Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, sem jafnframt er meðal stærstu hluthafa.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ákvað Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem er stærsti eigandi félagsins með tæplega 10 prósent hlut, að selja hluta bréfa sinna í félaginu.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur nú þegar selt hlut fyrir um 150 milljónir króna og þá hefur Gildi lífeyrissjóður losað um 4,4% í félaginu á síðustu vikum, en sjóðurinn átti ríflega 7% í félaginu áður en upp úr sauð.
Helgi Bjarnason, stærðfræðingur, tekur formlega við sem forstjóri félagsins 1. júlí, en Jakob Sigurðsson, sem tók við af Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur í ágúst í fyrra, hætti nýverið störfum sem forstjóri til að taka við starfi í Bretlandi.