365 miðlar verða næst stærsti eigandi Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, gangi samruni félaganna eftir með 10,9 prósent eignarhlut. Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, forstjóri 365 miðla, og félög á hennar vegum eiga um 75 prósent hlut í 365 miðlum. Eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, er með prókúru í félaginu Apogee ehf., sem heldur á þorra þess hlutar, eða 51,8 prósent. Ingibjörg er líka í stjórn 365 miðla og lögmaður á hennar vegum, Einar Þór Sverrisson, er stjórnarformaður félagsins. Þetta kemur fram í samrunaskrá vegna fyrirhugaðs samruna Fjarskipta og 365 miðla sem skilað var til Samkeppniseftirlitsins 27. apríl síðastliðinn.
Í samrunaskránni segir að enginn áhugi sé hjá stórum hluthöfum, eða stjórnendum hins sameinaða félags „að hafa afskipti af ritstjórnarlegu sjálfstæði þeirra fjölmiðla sem heyra undir félagið.“
Skrifað undir í mars
Ritað var undir samning um kaup Fjarskipta á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins og Glamour í mars síðastliðnum. Kaupverðið er 7.725-7.875 milljónir króna. að greiðist í reiðufé, með útgáfu nýrra hluta í Fjarskiptum og yfirtöku á 4,6 milljarða króna skuldum.
Fjarskipti eru að kaupa sjónvarps- og útvarpsstöðvar 365 auk fjarskiptahluta fyrirtækisins og fréttavefsins Vísir.is. Helstu sjónvarpsstöðvar eru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásin. Helstu útvarpsstöðvar eru Bylgjan, FM957 og X-ið.
Í fjárfestakynningu sem Fjarskipti hélt í tilefni þess að skrifað var undir samning um samrunann í mars kom fram að tekjur þeirra eininga sem keyptar verða af 365 hafi verið 8,5 milljarðar króna á árinu 2016. Í Samrunaskránni segir að heildarvelta 365 samstæðunnar hafi veri 11,1 milljarður króna í fyrra. Það þýðir að tekjur þeirra eininga sem skildar verða eftir í 365 miðlum, Fréttablaðsins og Glamour, voru um 2,6 milljarðar króna á árinu 2016.
Áfram sterk eigendatengsl
Við kaupin verða 365 miðlar næst stærsti eigandi Fjarskipta með 10,9 prósent eignarhlut. Eini eigandinn sem mun eiga meira er lífeyrissjóðurinn Gildi með 12,2 prósent hlut. Ursus, félag núverandi stjórnarformanns Fjarskipta, Heiðars Guðjónssonar, mun eiga 5,9 prósent hlut í sameinuðu félagi. Í ljósi þessa blasir við að 365 miðlar, og ráðandi eigendur þess, munu geta gert kröfu um að hafa umtalsverð áhrif innan Fjarskipta, og jafnvel farið fram á sæti í stjórn félagsins.
Í ljósi þess að 365 miðlar munu áfram eiga Fréttablaðið þá verða sterk eigendatengsl áfram á milli fjölmiðlafyrirtækjanna tveggja.