Eyrir Invest, stærsti hluthafi Marel,, hefur selt 10 milljón hluti í félaginu. Hlutirnir voru seldir á verðinu 348 krónur á hlut og því fékk Eyrir Invest tæplega 3,5 milljarða króna fyrir hlutinn. Verðið er aðeins undir skráðu gengi Marel, sem er nú 357,5 krónur á hlut. Eyrir er áfram stærsti eigandi Marel með 25,9 prósent eignarhlut. Aðrir stórir eigendur í félaginu eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Eyrir Invest heldur aðalfund í dag, 12. maí. Fyrir þeim fundi liggur tillaga stjórnar um frekarið kaup á eigin hlutum félagsins fyrir rúmlega 1,7 milljarð króna. Markaðsvirði Marel er nú 254,4 milljarðar króna.
Stutt er síðan að Eyrir seldi í Marel fyrir um 4,3 milljarða króna. Það gerðist 20. febrúar. Því hefur Eyrir Invest selt bréf í Marel fyrir 7,7 milljarða króna á tæpum þremur mánuðum. Þá var kaupandinn bandaríska fyrirtækið MSD Partners L.P sem greiddi 285 krónur á hlut í viðskiptunum, sem var 6,5 prósent lægra verð en lokagengi bréfa í Marel á markaði á þeim tíma. Alls var kaupverðið tæplega 4,3 milljarðar króna.
Í kjölfarið keypti Eyrir Invest upp allan B-flokk eigin hlutabréfa. Þeir eru í eigu fjárfesta, m.a. lífeyrissjóða. Samkvæmt upplýsingum frá Eyri Invest fór mjög stór hluti af því fé sem losað verður með sölunni á hlut í Marel í að innleysa B-hluti í félaginu.
Stærstu eigendur Eyris Invest eru Landsbankinn og feðgarnir Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest, og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.
Árið 2016 var besta ár Marel frá upphafi. Veltan nam 983 milljónum evra en var 819 milljónir evra árið áður. Hagnaður var 76 milljónir evra og hækkaði um þriðjung milli ára.