Íslensk heimili nota árlega að meðaltali fjögur til fimm tonn af heitu vatni á hvern fermetra. Um 90 prósent fara í húshitun en um 10 prósent í bað, sturtu, þrif, uppvask og almenna neyslu.
Oft er miðað við að hver Íslendingur noti um 200 lítra af vatni á dag en samkvæmt nýrri rannsókn, sem er í vinnslu á vegum Veitna ohf., fyrirtækis sem sér um að veita rafmagni og heitu og köldu vatni á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sýna fyrstu niðurstöður að líklega sé notkunin minni eða um 130 til 150 lítrar á dag. Til samanburðar má nefna að 60 lítrar af vatni eru notaðir í meðalsturtu sem tekur fimm mínútur.
Íslendingar hafa mikið og gott aðgengi að vatni því það rignir vel og snjóar á landinu. Þrátt fyrir það er vert að huga frekar að hversu mikið vatn er verið að nota, hversu mikið rennur af grunnvatni á landinu og hver gæði drykkjarvatns eru.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri umfjöllun um íslenskt vatn hér á vef Kjarnans.
Meðalnotkun
- Íslensk heimili nota árlega að meðaltali fjögur til fimm tonn af heitu vatni á hvern fermetra.
- Um 90% fara í húshitun en um 10% í bað, sturtu, þrif, uppvask og almenna neyslu.
- Meðalnotkun á heimili eru 500 lítrar á sólarhring.
- Oft er miðað við að hver Íslendingur noti um 200 lítra af vatni á dag en samkvæmt nýrri rannsókn, sem er í vinnslu á vegum Veitna ohf., fyrirtækis sem sér um að veita rafmagni og heitu og köldu vatni á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sýna fyrstu niðurstöður að líklega sé notkunin minni eða um 130 til 150 lítrar á dag.
- 60 lítrar af vatni eru notaðir í meðalsturtu sem tekur fimm mínútur.
- Meðalvinnsla í Heiðmörk er um það bil 700 lítrar vatns á sekúndu.
- Um helmingur þess vatns sem Veitur ohf. dreifa er nýttur í atvinnurekstri.
Auglýsing
Grunnvatn
- 5.000 rúmmetrar af vatni renna á sekúndu af landinu og þar af um 1.000 rúmmetrar af grunnvatni.
- Stærsti hluti grunnvatnsins, eða um 600 rúmmetrar á sekúndu, kemur fram sem lindarvatn á hálendinu og sameinast jökul- og dragám þar. Afgangurinn, um 400 rúmmetrar á sekúndu, kemur fram í lindum á láglendinu.
- Forspá veðurfarslíkana bendi til þess að úrkoma verði um 6.000 rúmmetrar á sekúndu árið 2100 vegna loftlagsbreytinga. Jöklarnir muni bráðna meira og hlýrra verði í veðri.
Neysluvatn
- 97% af neysluvatni Íslendinga er grunnvatn.
- Við reglubundið eftirlit á árunum 2010 til 2012 greindist E.coli í innan við 1% sýna hjá vatnsveitum sem þjóna fleirum en 500 manns.
- E.coli greindist í 6,5% sýna frá vatnsveitum sem þjóna 500 íbúum eða færri.
Hægt er að lesa nánar um stöðu vatns á Íslandi í umfjöllun Kjarnans „Bláa gullið“.