Tveir skattalögfræðingar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, Sheri Dillon og William Nelson, hafa birt bréf á vef Hvíta hússins, þar sem greint er frá tengslum Trumps við Rússa á undanförnum tíu árum. Engin gögn hafa verið birt ennþá. Samkvæmt bréfinu eru efnahagsleg tengsl Rússa við Trumps bundin við peningalegar greiðslur sem hann fékk vegna fegurðarsamkeppninnar Miss Universe sem haldin var í Moskvu 2013, en Trump hefur lengi verið eigandi keppninnar.
Þá seldi hann glæsihýsi við Palm Beach til rússnesk auðkýfings árið 2008 og fyrirtæki hans hefur síðan selt Rússum aðgang að golfvöllum í hans eigu.
Að öðru leyti eru tengslin sögðu engin, samkvæmt skattaskýrslum hans. Í umfjöllun Washington Post kemur fram að lögmennirnir hefðu ekki viljað afhenda gögn um frekari viðskipti Trumps.
Trump sagði í dag að það kæmi til greina að hætta með upplýsingafundi fyrir fjölmiðla í Hvíta húsinu.
Mikil pressa er nú á forsetanum, eftir að hann rak James Comey, fyrrverandi yfirmann FBI, skömmu eftir að hann hafði óskað eftir því við dómsmálaráðuneytið að fá frekri fjárveitingar vegna rannsóknar alríkislögreglunnar á tengslum Rússa við framboð Donalds Trumps.
Trump sagðist í gær hafa rekið Comey, einn og óstuddur, og að hann hefði fyrir löngu verið búinn að ákveða að gera það. Hann hafði stuðning dómsmálaráðuneytisins við ákvörðunina, en formlega var það Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, sem lagði það til að hann yrði rekinn.
Sessions sjálfur er til rannsóknar hjá FBI, en staðfest hefur verið með gögnum að hann hitti Sergey Kislyak, sendiherra Rússa í Washington, í tvígang á fundum í aðdraganda kosninganna í fyrra. Sessions hafði áður neitað því að hafa nokkru sinni átt í samskiptum við Rússa, og lét þau orð meðal annars falla eiðsvarinn frammi fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings.
FBI hefur staðfest að rannsóknin á tengslum Rússa við framboð Trumps sé í fullum gangi.