Vefurinn tonlist.is er í raun horfinn af markaðnum fyrir streymi á tónlist. Velta hans í fyrra var 15,3 milljónir króna og kostnaður við rekstur vefsins yfir 40 milljónir króna. Tap vegna einingarinnar var alls 24,1 milljónir króna. Þetta kemur fram í samrunaskrá vegna fyrirhugaðs samruna Fjarskipta og 365 miðla sem skilað var til Samkeppniseftirlitsins 27. apríl síðastliðinn.
„Ástæðan er sú að bæði velheppnað viðmót og markaðssetning Símans gerði það að verkum að Spotify tók þennan markað yfir á nánast einni nóttu, án þess að nokkrum vörnum yrði komið við. Alls óvíst er um framtíð tonlist.is á þessum markaði til lengri tíma,“ segir í samrunaskránni.
Um 60 þúsund Íslendingar með Spotify
Talið er að um 60 þúsund Íslendingar séu með áskrift að tónlistarstreymiveitunni Spotify. Hérlendis selur Síminn áskrift að Spotify, meðal annars með því að bjóða hana með öðrum vörum fyrirtækisins með afslætti. Sé Premium-áskrift að Spotify keypt hjá Símanum kostar hún 1.490 krónur á mánuði. Sé hún keypt beint af Spotify kostar hún hins vegar 9,99 evrur á mánuði, eða 1.140 krónur á mánuði. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er stærsti hluti þeirra Íslendinga sem eru með áskrift að Spotify með beina áskrift. Þ.e. ekki í gegnum Símann.
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir enda að þótt matið sem sett sé fram í samrunaskránni sé athyglisvert þá sé Spotify alheimsþjónusta sem allir orðið þekki. „Kynning Símans réð þar vart úrslitum heldur sú staðreynd að þjónustan er tæknilega góð, þar er gott framboð á efni á sanngjörnu verði. Spotify er ekki eina tónlistarveitan sem tonlist.is keppir við. Þær eru margar og ljóst að í þessu sem öðru getur verið erfitt að keppa við alþjóðarisa. Við hjá Símanum höfum séð að í samkeppni kjósa neytendur einfaldlega það sem þeir telja sig fá meira virði eða betri þjónustu fyrir fé sitt.“
Áhrif midi.is hverfandi
Vefurinn tonlist.is er ekki eina einingin sem fylgir með yfir til Fjarskipta, verði kaup þess félags á flestum eignum 365 miðla samþykkt, sem er ekki talin vera í hafa áhrif á samkeppni með samrunanum. midi.is mun líka fara yfir til Fjarskipta. Það fyrirtæki annast sölu á mannfagnaði og viðburði svo sem leiksýningar, tónleika, kvikmyndasýningar, íþróttaleiki og fleira.
Í samrunaskránni segir að starfsemi og áhrif midi.is séu hverfandi. Velta midi.is hafi verið 26,2 milljónir króna í fyrra, en 65,5 milljónir króna árið áður. Árið 2014 var velta Miða.is rúmar 88 milljónir króna.
365 miðlar keyptu midi.is vorið 2013 . Í frétt um kaupin á Vísi.is var haft eftir þáverandi forstjóra 365 miðla, Ara Edwald, að starfsemin félli vel að rekstri 365. Markmiðið væri að „gera þetta sterka vörumerki enn öflugra.“
Síðan þá hefur samkeppni midi.is aukist verulega. Fyrirtækið Tix Miðasala, sem á og rekur vefinn tix.is, hóf til að mynda sambærilega starfsemi á vef sem opnaði í október 2014.