Í samstarfssamningi sem gerður var samhliða kaupum Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, á flestum fjölmiðlum 365 miðla kemur fram að efni Fréttablaðsins, sem er ekki hluti af kaupunum, muni áfram birtast á Vísi.is í 44 mánuði eftir að kaupin ganga í gegn. Það þýðir að Vísir.is, sem verður þá í eigu Fjarskipta, mun geta birt allt efni Fréttablaðsins að morgni í tæp fjögur ár þrátt fyrir að fjölmiðlarnir verði ekki lengur í eigu sama aðila. Þetta kemur fram í samrunaskrá vegna fyrirhugaðs samruna Fjarskipta og 365 miðla sem skilað var til Samkeppniseftirlitsins 27. apríl síðastliðinn.
Ritað var undir samning um kaup Fjarskipta á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins og Glamour í mars síðastliðnum. Kaupverðið er 7.725-7.875 milljónir króna. að greiðist í reiðufé, með útgáfu nýrra hluta í Fjarskiptum og yfirtöku á 4,6 milljarða króna skuldum.
Fjarskipti eru að kaupa sjónvarps- og útvarpsstöðvar 365 auk fjarskiptahluta fyrirtækisins og fréttavefsins Vísir.is. Helstu sjónvarpsstöðvar eru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásin. Helstu útvarpsstöðvar eru Bylgjan, FM957 og X-ið. Þær eignir sem verða eftir í 365 miðlum eru Fréttablaðið og tímaritið Glamour.
Á fjárfestakynningu sem haldið var vegna þessa kom fram að aðilar hefðu „samið um miðlun fréttaefnis og samstarf sín á milli í kjölfar viðskipta.“ Í því fælist aðallega að efni úr Fréttablaðinu heldur áfram að birtast á Vísi, á grunni gerðs þjónustusamnings. Hins vegar hafði ekki komið fram áður í hversu langan tíma slíkur samningur ætti að gilda né hvaða takmarkanir hann myndi setja á notkun þess efnis á nýjum vef Fréttablaðsins.
Fréttablaðið má ekki birta eigið efni á eigin vef
Í samstarfssamningnum sem gerður var milli Fjarskipta og 365 miðla er einnig kveðið á um að efni Fréttablaðsins megi ekki fara inn á nýjan vef þess sem settur verði upp í kjölfarið af sölunni á Vísi yfir til Fjarskipta. Í samrunaskránni segir: „Er samningurinn talinn nauðsynlegur til þess að samruninn gangi í gegn, þar sem Fjarskipti munu ekki hafa yfir að ráða fréttastofu af því tagi sem þarf til að sinna vefsíðunni visir.is þegar við afhendingu eigna samkvæmt samningnum, gangi kaupin eftir. Því telja samrunaaðilar nauðsynlegt að viðhafa slíkt samstarf tímabundið, til þess að tryggja samfellu í rekstri fréttasíðunnar visir.is, gangi samruninn í gegn“.
Þessi fullyrðing, um að Fjarskipti muni ekki hafa yfir að ráða nægilega öflugri fréttastofu til að sinna Vísi.is stangast á við aðra fullyrðingu í samrunaskránni. Þar segir að Fréttastofa þeirra ljósvakamiðla sem verið sé að kaupa og Vísis.is verði „eftir sem áður rekin af myndugleik og ekki eru áform um að draga úr getu hennar eða sjálfstæði. Þvert á mót ætti hún að eflast í efnahagslega sterkari samstæðu en áður.“