Kjartan Bjarni Björgvinsson, sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands í janúar 2003 mun koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á fundi hennar á morgun klukkan klukkan 9. Finnur Vilhjálmsson, sem var starfsmaður rannsóknarnefndarinnar, mun einnig koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og svara spurningum nefndarmanna. Fundurinn verður lokaður fjölmiðlum. Þetta staðfestir Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í samtali við Kjarnann.
Daginn eftir, á miðvikudag, mun Ólafur Ólafsson svo koma fyrir nefndina. Sá fundur verður síðdegis, og hefst klukkan 15:15. Fundurinn verður opinn fjölmiðlum.
Högnuðust um milljarða með baksamningum
Rannsóknarnefnd sem rannsakaði aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003 skilaði af sér skýrslu 29. mars síðastliðinn.
Helstu niðurstöður nefndarinnar voru þær að stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hefðu verið blekktir við söluna. Ítarleg gögn sýni með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu. „Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.“
Auk þess komst nefndin að því að síðari viðskipti á grundvelli leynisamninganna hafi vert það að verkum að Welling & Partners hefði hagnast um rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem hafi verið greiddar til tveggja aflandsfélaga, Marine Choice Limited í eigu Ólafs Ólafssonar og Dekhill Advisors Limited sem ekki liggja óyggjandi upplýsingar fyrir hver á né hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins.
Telur sig ekki hafa blekkt ríkið
Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar er nú til meðferðar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Brynjar Níelsson, formaður hennar, hefur sagt að hann víki úr nefndinni við meðferð málsins og að umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um rannsóknarskýrsluna verði stýrt af Jóni Steindóri, varaformanni hennar. Ástæðan er sú að Brynjar var um tíma verjandi Bjarka Diego í sakamáli sem snerist um meint efnahagsbrot. Bjarki er einn þeirra sem gegndi lykilhlutverki í þeirri fléttu sem ofin var í kringum kaupin á Búnaðarbankanum.
Brynjar hefur samt sem áður verið í sambandi við Ólaf Ólafsson vegna beiðni hans um að koma fyrir nefndina og Ólafur sendi formlega beiðni sína um að fá að koma fyrir nefndina á Brynjar.
Í bréfinu sem hann sendi Brynjari 27. apríl síðastliðinn sagðist Ólafur vilja fá að koma fyrir nefndina til að að færa rök fyrir því að hann „hafi ekki blekkt ríkið“ þegar S-hópurinn keypti 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum. Hann vill einnig fá tækifæri til að lýsa sinni hlið „á því hvernig pólitísk afskipti komu mér fyrir sjónir í ferlinu“.