Starfsfólki Pressusamstæðunnar, sem rekur meðal annars DV, DV.is, Pressuna, Eyjuna og Bleikt.is, hefur verið tilkynnt um að ráðist verði í hagræðingu í rekstri sem ákveðin verði af stjórn Pressunnar.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var starfsfólkinu sagt í skilaboðum að hagræðingar væru alltaf sársaukafullar en óhjákvæmilegar. Ein þeirra aðgerða sem tilkynnt hefur verið um að ráðist verði í er að útgáfudögum DV, sem hefur komið út tvisvar í viku síðastliðin ár, verði fækkað í einn. Um verður að ræða helgarblað.
Endurskipulagning í uppnámi
Tilkynnt var um það 18. apríl að hlutafé útgáfufélagsins Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna. Samhliða átti Björn Ingi Hrafnsson, stofnandi Pressunnar og sá sem leitt hefur yfirtökur hennar á öðrum miðlum undanfarin ár, að stíga til hliðar.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að endurskipulagning Pressusamstæðunnar væri í uppnámi. Í ljós hefði komið að þær 300 milljónir króna sem tilkynnt hefur verið um að setja ætti inn í samstæðuna dugi ekki til. Gatið sem þurfi að brúa til að gera hana rekstrarhæfa sé nálægt 700 milljónum króna að þeirra mati.
Innan Pressusamstæðunnar eru tæplega 30 miðlar sem birta efni á vef, á dagblaða- og tímaritaformi og í sjónvarpi. Þeirra þekktastir eru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.