Kaupum Pressunnar á öllu hlutafé tímaritaútgáfunnar Birtingi hefur verið rift. Ástæðan er slæmt fjárhagsstaða Pressunnar, en eins og greint var frá að vef Kjarnans í morgun þá hafa allir hluthafar, sem tilkynnt var um að myndu leggja félaginu til um 300 milljónir króna, hætt við þátttöku og er rekstur félagsins nú í uppnámi.
Í bréfi sem sent var til starfsfólks Birtings, segir að eigendur Birtíngs ehf. hafi „komist að samkomulagi við eigendur Pressunnar ehf um riftun á kaupum Pressunnar á öllu hlutafé í Birtíngi ehf. Aðilar undirrituðu þessa riftun þann 10. maí síðastliðinn. Ástæða riftunarinnar eru fyrirsjáanlegar vanefndir á greiðslu kaupverðs vegna mjög slæmrar fjárhagsstöðu Pressunnar ehf.
Það verður því ekkert úr fyrirhugaðri sameiningu Birtíngs við samstæðu Pressunnar ehf. Birtíngur stendur eftir traustum fótum og er verið að tryggja fjárhagslega stöðu félagsins.“
Félag í eigu Halldórs Kristmannssonar, Róberts Wessman, Árna Harðarsonar, Hilmars Þórs Kristinssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar, Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf., ætlaði að verða langstærsti eigandi Pressunnar og koma inn með 155 milljónir króna af nýju hlutafé.
Samkvæmt heimildum Kjarnans tilkynntu forsvarsmenn þess félags núverandi stjórnendum Pressunnar í síðustu viku að þeir og aðrir sem ætluðu að koma inn í reksturinn samhliða þeim myndu draga sig út og að ekkert yrði að hlutafjáraukningunni.
Skuldir Pressunnar reyndust vera, þegar búið var að rýna í stöðu þess, rúmlega 700 milljónir króna og að það var mat þeirra, sem ætluðu að koma að félaginu, að sambærilega upphæð þurfi til að koma Pressusamstæðunni á réttan kjöl.
Af þessum skuldum séu um 300 milljónir króna við lífeyrissjóði, stéttarfélög og vegna vangoldinna opinberra gjalda, svokallaðra rimlagjalda. Hin ætlaða hlutafjáraukning hefði því ekki dugað fyrir því að greiða þær skuldir, og hvað þá aðrar.
Þá átti auk þess eftir að taka inn í dæmið fjárfestingu í rekstrinum, sem reiknað var með að þyrfti á einhverjum tímapunkti að vera umtalsverð, sérstaklega í ljósi þess að búið var að skera rekstur ritstjórna miðlanna sem heyra undir samstæðuna „alveg inn að beini,“ líkt og einn viðmælandi Kjarnans sagði.