Hættir við fjárfestingu í Pressunni

Fjárfestarnir sem ætluðu að setja 300 milljónir í fjölmiðlasamstæðuna Pressuna eru flestir hættir við. Skuldir hennar eru sagðar rúmlega 700 milljónir. Þar af eru tæpur helmingur við lífeyrissjóði, stéttarfélög og vegna vangreiddra opinberra gjalda.

7DM_0798_raw_2403.JPG
Auglýsing

Þeir fjár­festar sem greint var frá fyrir tæpum mán­uði síðan að myndu setja 300 millj­ónir króna af nýju hlutafé inn í Pressu­sam­stæð­una eru nær allir hættir við. Félag í eigu Hall­­­dórs Krist­manns­son­ar, Róberts Wessman, Árna Harð­­­ar­­­son­­­ar, Hilm­­­­­ars Þórs Krist­ins­­­sonar og Jóhanns G. Jóhanns­­­son­­­ar, Fjár­­­­­fest­inga­­­fé­lagið Dal­­­ur­inn ehf., ætl­­aði að verða langstærsti eig­andi Pressunnar og koma inn með 155 millj­­­ónir króna af nýju hluta­fé. Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans til­kynntu for­svars­menn þess félags núver­andi stjórn­endum Pressunnar í síð­ustu viku að þeir og aðrir sem ætl­uðu að koma inn í rekst­ur­inn sam­hliða þeim myndu draga sig út og að ekk­ert yrði að hluta­fjár­aukn­ing­unni.

Innan Pressu­­sam­­stæð­unnar eru tæp­­lega 30 miðlar sem birta efni á vef, á dag­­blaða- og tíma­­rita­­formi og í sjón­­varpi. Þeirra þekkt­­astir eru DV, DV.is, Eyj­an, Pressan, sjón­­varps­­stöðin ÍNN og tíma­­ritin Vikan, Gest­gjaf­inn, Nýtt líf og Hús og híbýli.

Komið í veg fyrir að toll­stjóri myndi inn­sigla

Hóp­ur­inn sem um ræðir hafði lánað umtals­verða fjár­muni inn í sam­stæð­una á síð­ustu vikum til að greiða opin­ber gjöld sem voru í van­skil­um. Það var gert, að sögn við­mæl­enda Kjarn­ans sem komu að hinni ætl­uðu hluta­fjár­aukn­ingu, til að forð­ast að toll­stjóri myndi inn­sigla félög sem til­heyra sam­stæð­unni.

Róbert Wessman og nokkrir viðskiptafélagar hans ætluðu að setja 155 milljónir króna inn í Pressuna. Þeir eru nú hættir við.Sömu við­mæl­endur segja að skuldir Pressunnar séu rúm­lega 700 millj­ónir króna og að það sé þeirra mat að sam­bæri­lega upp­hæð þurfi til að koma Pressu­sam­stæð­unni á réttan kjöl. Af þessum skuldum séu um 300 millj­ónir króna við líf­eyr­is­sjóði, stétt­ar­fé­lög og vegna van­gold­inna opin­berra gjalda, svo­kall­aðra rimla­gjalda. Hin ætl­aða hluta­fjár­aukn­ing hefði því ekki dugað fyrir því að greiða þær skuld­ir, og hvað þá aðr­ar. Þá átti auk þess eftir að taka inn í dæmið fjár­fest­ingu í rekstr­in­um, sem reiknað var með að þyrfti á ein­hverjum tíma­punkti að vera umtals­verð, sér­stak­lega í ljósi þess að búið var að skera rekstur rit­stjórna miðl­anna sem heyra undir sam­stæð­una „al­veg inn að bein­i,“ líkt og einn við­mæl­andi Kjarn­ans sagði.

Staðan mun verri en af var látið

Ljóst hefur verið um nokk­urt skeið að mikil fjár­hags­vand­ræði steðj­uðu að Press­unni, einu stærsta einka­rekna fjöl­miðla­fyr­ir­tæki lands­ins sem vaxið hefur gíf­ur­lega hratt á und­an­förnum árum í gegnum yfir­tökur á miðl­um. Sam­hliða hafa skuldir sam­stæð­unnar vaxið hratt, meðal ann­ars vegna selj­enda­lána sem fyrr­ver­andi eig­endur þeirra miðla sem Pressan hefur tekið yfir hafa veitt. Engar upp­lýs­ingar hafa hins vegar feng­ist um hverjir aðrir lán­veit­endur Pressunn­ar, eða stærstu eig­enda henn­ar, séu. 

Í mars greindi Frétta­blaðið frá því að VR, stærsta stétt­ar­fé­lag lands­ins, hefði kraf­ist þess að DV ehf., útgáfu­fé­lag DV, yrði tekið til gjald­þrota­skipta vegna van­gold­inna launa félags­manna þess. Áður hafði Líf­eyr­is­sjóður versl­un­ar­manna gert árang­urs­laust fjár­nám hjá DV vegna þess að líf­eyr­is­greiðslum starfs­manna sem dregnar höfðu verið frá launum þeirra hafði ekki verið skilað til sjóðs­ins. Í frétt Frétta­blaðs­ins var rætt við fyrr­ver­andi aug­lýs­inga­sölu­mann hjá DV sem sagð­ist eiga kröfu upp á tæpa milljón krónur á félag­ið. Auk þess hefði það dregið með­lags­greiðslur af launum hans en haldið þeim eft­ir, að sögn manns­ins.

Auglýsing

Fljót­lega eftir að til­kynnt var um 300 milljón króna hluta­fjár­aukn­ingu í Pressu­sam­stæð­unni, sem var gert 18. apríl síð­ast­lið­inn, fóru að renna tvær grímur á nýju fjár­fest­ana. Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að það hafi ekki tekið þá langan tíma að átta sig á að staðan hafi verið mun verri en af var lát­ið. Það var til marks um slæma stöðu sam­stæð­unnar að þeir stjórn­­­ar­­menn sem til­­kynnt var um að setj­­­ast ættu í stjórn Pressunnar fyrir tæpum mán­uði gerðu það aldrei for­m­­lega. Þeir vildu ekki bera neina laga­­lega ábyrgð á sam­­stæð­unni eins og hún er í dag.

Ætl­uðu að skera niður kostn­að­ar­samt efsta lag

For­sendur þess að nýja hluta­féð yrði greitt inn voru nokkr­ar. Sú fyrsta var að Björn Ingi Hrafns­son, útgef­andi, og Arnar Ægis­son, fram­kvæmda­stjóri, færu alfarið út úr rekstr­in­um. Önnur var að komið væri jafn­vægi á rekstur ein­stakra miðla sem til­heyrðu sam­stæð­unni og að þeir væru ekki að tapa pen­ing­um. Svo reynd­ist alls ekki vera.

Hóp­ur­inn vildi samt kanna hvort hægt væri að halda áfram og ráð­ast í ein­faldar nið­ur­skurð­ar­að­gerðir á borð við það að sam­eina starf­sem­ina undir einu þaki, fækka útgáfu­dögum DV í einn og skera niður kostnað í efsta lagi sam­stæð­unn­ar, þar sem helstu stjórn­endur reynd­ust vera með um tvær millj­ónir króna í mán­að­ar­laun á sama tíma og rit­stjórnir miðla voru langt frá því að vera full­mann­að­ar. Þá voru fjár­festar til­búnir til að koma inn síðar ef tek­ist hefði að koma jafn­vægi á rekstur ein­stakra miðla.

Björn Ingi Hrafnsson sendi starfsfólki bréf nýverið þar sem hann óskaði eftir liðsinni þeirra við að koma rekstrinum á réttan kjöl.Eftir að vænt­an­legum nýjum eig­endum var hleypt að félag­inu kom ein­fald­lega í ljós að staðan var mun verri en nokkur þeirra hafði ímyndað sér. Líkt og Kjarn­inn greindi frá í síð­ustu viku komu upp ný mál nán­ast á hverjum degi sem gerðu stöð­una verri. Ljóst var að rekstur ein­stakra ein­inga, sér­stak­lega DV, var í miklum ólestri. „Það stóð ekki steinn yfir steini í þessu og þess vegna er þetta stað­an,“ sagði einn við­mæl­andi Kjarn­ans. Staðan sem hann vísar til er sú að hætt hefur við hluta­fjár­aukn­ing­una. Og hóp­ur­inn sem ætl­aði að bjarga Pressu­sam­stæð­unni frá gjald­þroti segir að hann telji nú að það sé ekki hægt.

Óskar eftir hjálp starfs­manna

Björn Ingi Hrafns­son sendi starfs­mönnum Pressu­sam­stæð­unnar póst í vik­unni þar sem hann sagð­ist vilja upp­lýsa um að ekk­ert sér­stakt nýtt hefði gerst í málum hennar und­an­farna daga „utan að svo virð­ist sem við Arnar séum farnir minna út úr þessu en við tveir töld­um.“

Í póst­inum segir hann svo að það sé alls ekki rétt að það vanti 700 millj­ónir króna í hlutafé heldur sé sú tala nær því að ná yfir heild­ar­skuldir sam­steypunn­ar. Það vanti hins vegar fjár­magn, þeir hafi unnið að því und­an­farna mán­uði að safna því og náð heil­miklum árangri. „Fé­lagið hefur meira en tífald­ast að stærð á fáum árum og því fylgja vaxt­ar­verkir í óhag­stæðu rekstr­ar­um­hverfi íslenskra fjöl­miðla. Við erum að greiða starfs­fólki okkar hærri laun en gengur og ger­ist (eða svo er okkur sagt) og kannski höfum við verið of róm­an­tískir að halda úti efn­is­þáttum sem ekki standa undir sér. Við höfum lagt mikla áherslu á jákvæðan starfsanda og að starfs­fólki líði eins og það sé hluti af stórri fjöl­skyldu. En við höfum líka gert mis­tök. Við höfum tapað allt of miklu á útgáfu DV og það hefur reynst okkur mjög erfitt. Staða DV var mjög erfið þegar við tókum blaðið yfir eftir enda­lausar deilur og það hefur verið þrautin þyngri að snúa því við.“

Björn Ingi segir í póst­inum að rekstr­ar­staða miðla sam­stæð­unnar hefði batnað mjög und­an­farna mán­uði. „Við þurfum ykkar hjálp á næst­unni til að koma í veg fyrir tap­rekstur í ein­stökum deild­um. Við höfum bara ekki efni á því leng­ur. Við Arnar Ægis­son og Vene­dikts­son Sam­steypan Venni [Sig­ur­vin Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri DV] ætlum að berj­ast bjart­sýnir næstu daga og vikur og erum sann­færðir um að ætl­un­ar­verkið muni takast. Ég er nokkuð viss um að ein­hverjir vilja gjarnan að þetta mis­tak­ist. En ég vona að við eigum áfram­hald­andi stuðn­ing ykkar allra í bar­átt­unn­i.“

Starfs­menn Pressu­sam­stæð­unnar sem Kjarn­inn ræddi við túlka skila­boð stjórn­enda hennar ein­ungis á einn veg: fyrir dyrum eru upp­sagnir og launa­lækk­anir í til­raun til að bjarga rekstr­in­um. Við­mæl­endur innan fjár­festa­hóps­ins sem ætl­aði að koma að Press­unni telja þó að það muni ekki duga til. 

Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar