Bankaráð Landsbankans hefur tekið ákvörðun um að byggja höfuðstöðvar bankans á lóðinni við Austurhöfn í miðbæ Reykjavíkur. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá bankanum.
Bankinn hefur skoðað ýmsa kosti í húsnæðismálum í samvinnu við ráðgjafarfyrirtækið KPMG og verkfræðistofuna Mannvit, og niðurstaða greiningar KPMG var sú að ákjósanlegast væri að flytja höfuðstöðvarnar í Austurhöfn. KPMG leit á hagkvæmni, verðgildi húsa til framtíðar, samgöngur, staðsetningu, skipulagsmál, sveigjanleika húsnæðis og þjónustu og mannlíf í nágrenninu þegar skoðaðir voru mismunandi kostir. Meðal annarra kosta sem voru skoðaðir voru lóðir í grennd við Borgartún, Kringluna og Smáralind.
Landsbankinn keypti lóðina við Austurhöfn árið 2014 með það í huga að þar myndu rísa nýjar höfuðstöðvar bankans. Í kjölfar gagnrýni á það var ákveðið að fresta áformunum og fara yfir málið. Niðurstaðan er sem fyrr segir að halda áfram með áformin um byggingu höfuðstöðva við hlið Hörpu.
Kostnaðurinn við að byggja nýjar höfuðstöðvar verður tæpir níu milljarðar króna, að meðtöldu lóðarverðinu, að mati Mannvits. Samkvæmt skipulagi verður húsið 16.500 fermetrar en bankinn ætlar sér að nýta 10 þúsund fermetra sjálfur og leigja út eða selja 6.500 fermetra. Áætlaður kostnaður við hlutann sem bankinn ætlar að nýta er 5,5 milljarðar. Á móti kostnaði kæmi einnig söluverðmæti þeirra fasteigna sem bankinn getur selt við flutningana.
Í fréttatilkynningunni kemur fram að árlegur sparnaður vegna flutninga sé metinn vera um 500 milljónir króna. Þar er haft eftir Helgu Björk Eiríksdóttur, formanni bankaráðs, að starfsemi bankans í miðborginni sé í þrettán húsum, og húsnæðið sé bæði óhagkvæmt og óhentugt. „Þetta er eitt af þeim skrefum sem brýnt er að taka til að bæta reksturinn og gera Landsbankann betur í stakk búinn til að þróast í síbreytilegu umhverfi. Við munum vanda til verka við úrlausn þessa máls, enda mikilvægt að vel takist til. Við viljum gæta sérstaklega að því að hús bankans við Austurstræti 11, sem hefur menningarlegt og sögulegt gildi, fái áfram að njóta sín.“