Meiri- og minnihluti Umhverfis- og samgöngunefndar eru báðir fylgjandi að frumvarp um breytingar á umferðarlögum sem heimilar innheimtu bílastæðagjalda í dreifbýli verði samþykkt. Frumvarpið er til þess ætlað að aðstoða sveitarfélög að standa undir kostnaði á uppbyggingu innviða ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
Meirihluti nefndarinnar lagði til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Í nefndaráliti meirihlutans segir að þær umsagnir sem bárust með frumvarpinu hafi almennt verið jákvæðar. Helstu gagnrýnisraddirnar hafi borist frá Samtökum ferðaþjónustunnar.
Gagnrýnin sneri að því að með frumvarpinu „sé sveitarfélögum veitt takmarkalaus heimild til gjaldtöku og að gjaldtaka og skattheimta af ferðaþjónustu sé nýtt til uppbyggingar annarra innviða [en þeim sem lúta að ferðaþjónustu].“.
Meiri hlutinn bendir á með tilliti til þessa að þótt heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku og útgáfu sekta verði rýmkaðar sé um þjónustu gjald að ræða og því beri að nýta þau að öllu eða hluta til að standa undir þeim kostnaði sem þjónustan veiti. „Svo að féð skuli nýta til uppbyggingar í tengslum við viðkomandi bílastæði og þá þjónustu sem veitt er í kringum það, þ.e. einkum til að fjármagna innviðauppbyggingu fyrir ferðamenn.“ segir í nefndarálitinu.
Minnihlutinn vill skýrari fyrirmæli
Minni hluti nefndarinnar varar við að ekki megi líta á það sem svo að samþykkt frumvarpsins leiði til „að fjárþörf sveitarfélaganna til uppbyggingar vegna stóraukins ferðamannastraums hafi verið mætt. Vegna eðlis þjónustugjalda er ljóst að tryggja þarf sveitarfélögunum meira fjármagn en hér er gert ráð fyrir.“
Minni hlutinn bendir á að í frumvarpinu skorti skilgreiningar á ýmsum hugtökum. Í frumvarpinu er kveðið á að það gjald sem innheimt er megi nýta meðal annars til að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi og rekstri bílastæða. Einnig er heimilt að nýta gjaldið til uppbyggingar á þjónustu þátta svo sem salernisaðstöðu, gerð og viðhaldi göngustíga og tengingar við önnur mannvirki.
„Hér er að mörgu að hyggja, svo sem því hvað átt er við með tengingu við önnur samgöngumannvirki. Þá vekur ákvæðið upp þær spurningar hvernig fjárhæð gjaldsins verður ákveðin. Mun það lækka þegar stofnkostnaður hefur verið greiddur niður og það stendur aðeins undir rekstrarkostnaði? Verður það lægra á bílastæðum sem þegar hafa verið lögð þar sem ekki er heimilt að láta þjónustugjöld standa undir kostnaði við uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað ?“ segir í nefndarálitinu.
Í álitinu kemur fram sú skoðun minnihlutans að í frumvarpinu komi ekki fram hver raunverulegur vilji stjórnvalda er varðandi innheimtu bílastæðagjalda í þéttbýli. „Þá er óljóst hvort bílastæðagjöld eigi að nýta til aðgangsstýringar. Verður fólki meinaður aðgangur að svæðum ef bílastæðin við það eru full? Þar er á ferð mun umfangsmeiri umræða en tæpt er á í þessu frumvarpi og minni hlutinn kallar eftir því að ráðherra skýri betur stefnuna hvað það varðar.“
Minni hlutinn leggst ekki á móti samþykkt frumvarpsins og leggur til að skipaður verði starfshópur sem fari heildstætt yfir gjaldtöku í ferðaþjónustu. Undir nefndarálit minnihlutans skrifa tveir þingmenn Vinstri grænna Kolbeinn Óttarsson Proppé og Ari Trausti Guðmundsson