Lagðar eru til miklar breytingar á áfengisfrumvarpinu svonefndu í drögum að nefndaráliti frá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Þetta kemur fram á mbl.is.
Málið er nú til umfjöllunar á fundi nefndarinnar sem fram fer síðar í dag.
Frumvarpið gerði ráð fyrir því í upphafi að sala með áfengi yrði gefin frjáls, og yrði þannig heimiluð í verslunum en ekki aðeins verslunum ÁTVR.
Í frétt mbl.is segir að það sé meðal annars gengið út frá því að áfengi verði einungis selt í sérverslunum og að rekstri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) verði haldið áfram. Ennfremur að áfengisauglýsingum, þar með talið léttbjórsauglýsingum, verði settar miklar skorður að franskri fyrirmynd og að óheimilt verði að selja áfengi undir kostnaðarverði.
Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að aldursmörk þeirra sem selji áfengi verði hækkað upp í 20 ár og að afgreiðslutími verði styttur frá fyrri frumvarpsdrögum þannig að áfengissala verði heimil á tímabilinu 11-22. Þá er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí á næsta ári, að því er segir í fréttinni.
Til að meta áhrif frumvarpsins þykir rétt að það viðbótarfé sem renni til lýðheilsusjóðs megi nota til rannsókna á áfengisneyslu þjóðarinnar. Sömuleiðis er lagt til að sérstök áhersla verði á forvarnir og rannsóknir á áfengisneyslu á árunum 2018-2022. Þá er lagt til að sá hluti laganna sem snýr að hærri framlögum í lýðheilsusjóð taki gildi fyrr.