Samkeppniseftirlitið telur það geta varðað við lög að birta upplýsingar úr samrunaskrá 365 og Vodafone, líkt og Kjarninn gerði í dag.
Kjarninn hefur undir höndum fyrstu útgáfuna af samrunaskránni, þar sem trúnaðarupplýsingar úr skránni voru aðgengilegar, þar á meðal upplýsingar um hversu mörg stöðugildi myndu hverfa við samrunann. Þeirri skrá var skipt út með nýrri útgáfu þar sem ekki er hægt að nálgast þessar upplýsingar.
Samkeppniseftirlitið sendi frá sér fréttatilkynningu vegna þessa fyrir skömmu, þar sem kemur fram að 365 og Vodafone höfðu ekki fellt út trúnaðarupplýsingarnar með fullnægjandi hætti, því hægt var að finna þessar upplýsingar í skjalinu. Samkeppniseftirlitið hafi þegar gripið til aðgerða.
„Þeim eindregnu tilmælum er beint til þeirra sem hafa gripið til ráðstafana til þess að nálgast hinar útfelldu upplýsingar að eyða viðkomandi upplýsingum og miðla þeim ekki. Minnst er á að það getur varðað við lög að miðla og dreifa upplýsingum sem leynt eiga að fara.“
Vegna Fréttatilkynningar frá Samkeppniseftirlitinu og athugasemda Fjarskipta vegna frétta Kjarnans um trúnaðarupplýsingar úr samrunaskrá Fjarskipta og 365 vill Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, koma eftirfarandi á framfæri:
Starfsmenn Kjarnans settu ekki skjal á vef Samkeppniseftirlitsins sem innihélt trúnaðarupplýsingar, heldur eftirlitið sjálft. Á því getur Kjarninn ekki borið ábyrgð. Auk þess getur blaðamaður ekki brotið lög um miðlun trúnaðarupplýsinga heldur einungis sá sem lætur honum þær upplýsingar í té.
Í lögum um fjölmiðla er með skýrum hætti tekið fram, í 25. grein sem fjallar um vernd heimildarmanna, að „ starfsmönnum fjölmiðlaveitu sem hlotið hafa leyfi eða skráningu hjá fjölmiðlanefnd er óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Starfsmönnum fjölmiðlaveitu er jafnframt óheimilt að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund í slíkum tilvikum.“ Þessari vernd er einungis aflétt ef málefni varðar „öryggi, réttindi eða heill ríkisins eða skipta mjög miklu fyrir viðskipti eða fjárhag þjóðarinnar.“
Ljóst er að frétt um hversu mörg stöðugildi Fjarskipti ætlar að fækka um eftir samruna sinn við 365 miðla, og hversu mikla peninga sú fækkun sparar á ári, er ekki þjóðaröryggismál. Því er áminningu Samkeppniseftirlitsins í tengslum við þessa frétt um að það geti varðað við lög að miðla og dreifa upplýsingum sem leynt eigi að fara alfarið hafnað. Og fullt tilefni er að gera athugasemd við að eftirlitsstofnun setji fram svo lítt dulbúna hótun gagnvart fjölmiðlum vegna þess að samrunaaðilar gerðu mistök við gerð skjals og Samkeppniseftirlitið birti skjalið með þeim mistökum. Hér virðist sem lítill vilji sé til staðar til að axla ábyrgð á eigin mistökum, og þess í stað hengja sök í málinu á fjölmiðil.
Enn fremur er rétt að gera alvarlega athugasemd við þá kröfu Samkeppniseftirlitsins um að fjölmiðill eigi að eyða viðkomandi upplýsingum og miðla þeim ekki. Kjarninn segir fréttir. Trúnaður hans er við almenning, ekki eftirlitsstofnun eða fyrirtækin sem eru að sameinast. Það er fréttnæmt að það eigi að fækka um á fimmta tug stöðugilda hjá fjölmiðlafyrirtæki, algjörlega óháð því hvort að Fjarskipti, 365 og Samkeppniseftirlitið ætluðu þeim upplýsingum að verða opinberar eða ekki. Fjölmiðlar eru mikilvægar stoðir í lýðræðisríkjum og því færri sem á þeim starfa, því veikari verður máttur þeirra til að sinna hlutverki sínu.