Í leiðara þýska tímaritsins Der Spiegel, enskumælandi útgáfunnar, er Donald J. Trump Bandaríkjaforseti harðlega gagnrýndur og hann sagður vanhæfur til að gegna þessu stærsta pólitíska embætti heimsins. Í leiðaranum segir meðal annars að Trump sé lygari og kynþáttahatari, og hann búi ekki yfir þeim eiginleikum sem forseti Bandaríkjanna þurfi að búa yfir, til að geta gegnt starfinu.
Þá er hann sagður „svindlari“ sem hafi verið staðinn að ósannindum í „mörg hundruð skipti“. Heimurinn horfi nú upp á bandarískan harmleik með hann í forsetaembætti, og að nú sé nóg komið.
Óhætt er að segja að öll spjót standi á Trump þessa dagana. Sérstakur saksóknari hefur verið skipaður til að rannsaka tengsl framboðs Trumps við Rússa, og þá ekki síst samskipti hans við James Comey, sem hann rak úr embætti yfirmanns alríkislögreglunnar FBI fyrir skömmu.
Í minnisblaði Comey segir að Trump hafi þrýst á hann um að hætta rannsókn á tengslum Michael Flynn við Rússa, en Flynn hætti í stöðu þjóðaröryggisráðgjafa um miðjan febrúar, eftir 20 daga í embætti, eftir að ljóst var að hann hafði sagt varaforsetanum Mike Pence ósatt um samskipti hans við Sergey Kislyak, sendiherra Rússlands í Washington DC.
Flynn ræddi meðal annars um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum við Kislyak.
Í gær samþykkti James Comey að koma fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings til að svara spurningum nefndarmanna um rannsókn FBI á tengslum við Rússa og samskipti hans við Trump. Yfirheyrslan verður opin og hún sýnd beint í sjónvarpi.