Michael Flynn, sem starfaði sem þjóðaröryggisráðgjafni Bandaríkjaforseta í 20 daga áður en hann var látinn hætta, neita að afhenda þingnefnd Bandaríkjaþings gögn, sem nefndin vill fá afhent í tengslum við rannsókn á tengslum framboðs Donalds Trumps við Rússa.
Frá þessu greindi New York Times í dag, en í umfjöllun Bloomberg um málið segir að Flynn ætli sér að láta reyna á rétt sinn og að hann neiti með öllu að sýna á spilin þegar kemur að þessum gögnum.
Þá segir enn fremur að lögfræðingar, sem Bloomberg vitnar til, telji að líkur á því að málsókn gegn Flynn séu þó nokkrar. Þá yrði jafnvel byggt á því að brot hans varði við landráð, og einnig að hann hafi sagt þinginu og stjórnvöldum ósatt um tengsl sín við Rússa.
Ástæðan fyrir því að hann var þvingaður til að hætta, var sú að hann hafði rætt um viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gagnvart Rússum við sendiherra Rússa.
Alríkislögreglan FBI er að rannsókn tengsl Flynn við Rússa, og einnig fleiri aðila sem tengdust framboði Trumps, þar á meðal Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, en vitað er að hann átti fundi með Sergey Kislyak, sendiherra Rússa í Washington DC., í tvígang á síðasta ári.
Sessions sagði ósatt um þessi tengsl sín, eiðsvarinn frammi fyrir þingnefnd, en gögn frá FBI og leyniþjónustunni CIA staðfestu að hann hefði átt fundi með Kislyak.
Tengsl Rússa við framboð Trumps, og einstaka menn innan þess, eru nú til rannsóknar hjá Bandaríkjaþingi, CIA og FBI.
Á blaðamannafundi í dag sagðist Donald Trump, Bandaríkjaforseti, ekki hafa talað fyrir því á fundi með James Comey, fyrrverandi yfirmanni FBI, að FBI myndi hættað rannsaka Flynn. Samkvæmt minnisblöðum Comey þá lét Trump þessi orð falla á fundi þeirra.