Íþróttavöruverslunin INTERSPORT mun hætta starfsemi í sumar. Starfsfólki hennar var tikynnt um þetta í síðustu viku, samkvæmt upplýsingum Kjarnans. Eignarhaldsfélagið Festi, sem sérhæfir sig í rekstri verslunarfyrirtækja, er eigandi INTERSPORT og hefur rekið stórverslun undir merkinu á Bíldshöfða í 19 ár. Auk þess þess hafa verið reknar tvær INTERSPORT verslanir á landsbyggðinni inn í verslunum BYKO á Selfossi og Akureyri.
Jón Björnsson, forstjóri Festis, staðfestir það við Kjarnann að versluninni verði lokað í sumar og að lagersala sé þegar hafin. Önnur verslun, sem þó verði ekki íþróttavöruverslun, muni opna á þeim stað sem INTERSPORT hefur verið. „Núverandi starfsfólki INTERSPORT hefur verið boðið að vinna fyrir önnur fyrirtæki Festi, hafi þau áhuga á því,“ segir Jón.
Festi hf. keypti fjögur fyrirtæki af Norvik hf. ásamt fasteignum í mars 2014. Með kaupunum tók Festi yfir rekstur Kaupás, sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, Nóatúns og Kjarvals, ELKO, Intersport og vöruhótelsins Bakkans. Þá hefur Festi jafnframt gengið frá kaupum á hluta af fasteignasafni Smáragarðs.
Miklar breytingar hafa orðið á íslenskum smásölumarkaði. Smásölurisinn Hagar keyptu til að mynd nýverið allt hlutafé í Olís og höðfðu áður keypt Lyfju. Félagið hefur auk þess lokað tískuvöruverslunum Topshop, Dorothy Perkins, Debenhams, Evans og Warehouse. Breytingarnar eru flestar raktar til þess að stór alþjóðleg fyrirtæki eru að hefja starfsemi á Íslandi á næstu misserum. Costco opnaði til að mynda risaverslun sína í Garðabæ í dag og fyrsta af þremur væntanlegum verslunum H&M hérlendis mun opna í Smáralind í haust