Það voru fyrst og fremst stjórnendur, millistjórnendur og sérfræðingar í höfuðstöðvum Íslandsbanka sem misstu vinnuna í uppsögnum hjá bankanum í dag. Þetta kemur fram á Vísi.
Meðal þeirra sem hafa látið af störfum eru Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, Elín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VÍB, eignastýringar bankans, og Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Markaða. Jón Bjarki Bentsson hefur tekið við sem aðalhagfræðingur, og mun sjá um þjóðhagsgreiningu bankans, en talsverðar breytingar verða gerðar á starfi greiningardeildar bankans, líkt og fram kom í tilkynningu hans í morgun.
Íslandsbanki tilkynnti í morgun starfsmönnum myndi fækka um tuttugu samhliða breytingum á skipulagi sem taka gildi í dag.
„Á undanförnum árum höfum við verið að einfalda bankaviðskiptin og nú einföldum við og aðlögum skipulag bankans að breyttu umhverfi. Það er öllum fyrirtækjum hollt að fara í gegnum skipulagsbreytingar og í því liggja fjölmörg tækifæri. Með þessum breytingum blæs bankinn til sóknar og treystir undirstöður fyrir aukna skilvirkni. Við hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs við viðskiptavini okkar þar sem við munum einblína á enn betri þjónustu í nýju og einfaldara skipulagi,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra í tilkynningunni.
Skipulagi bankans verður skipt í þrjú tekjusvið sem verða einstaklingar, viðskiptabanki og fyrirtæki og fjárfestar. Markmiðið með breytingunum er að mæta breyttum þörfum og bjóða betri bankaþjónustu, segir í tilkynningunni. Einstaklingssvið mun veita einstaklingum alhliða fjármálaþjónustu, viðskiptabankasvið mun þjónusta lítil og meðalstór fyrirtæki og svið stórra fyrirtækja og fjárfesta mun þjónusta stór fyrirtæki og fjárfesta með lánveitingar, miðlun verðbréfa og gjaldeyris, fyrirtækjaráðgjöf, einkabankaþjónustu og sölu áhættuvarna.
Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir hefur verið ráðin sem nýr framkvæmdastjóri einstaklingssviðs bankans, en hún er lögmaður með MBA próf frá viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS). Una Steinsdóttir og Vilhelm Már Þorsteinsson eru framkvæmdastjórar hinna sviðanna.
VÍB eignastýring mun færast yfir á tekjusviðin og í dótturfélag bankans, Íslandssjóði, og áherslubreytingar verða gerðar á greiningarstarfi bankans. Áfram verður þó starfandi aðalhagfræðingur sem mun bera ábyrgð á þjóðhagsgreiningu bankans.