Feður sem fá fæðingarorlofsgreiðslur eru mun tekjuhærri heldur en mæður sem fá fæðingarorlof. Meira en helmingur feðra sem tóku fæðingarorlof í fyrra fengu hámarksgreiðslur, en innan við fjórðungur mæðra.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svari Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni, þingmanni VG. Andrés spurði um fjölda foreldra sem hafa fengið greitt fæðingarorlof og fæðingarstyrk undanfarin fjögur ár og eftir sundurliðun eftir tekjum þeirra.
Í fyrra voru flestir feður sem tóku fæðingarorlof með laun á bilinu 500 til 750 þúsund krónur í mánaðartekjur, eða þriðjungur þeirra. Aftur á móti var algengasta launabilið hjá mæðrum 200 til 300 þúsund krónur í mánaðartekjur, en fjórðungur mæðranna hafði þær tekjur. Litlu færri voru með á bilinu 300 til 400 þúsund krónur í mánaðarlaun.
Fimm prósent feðra og eitt prósent mæðra sem tóku fæðingarorlof voru með meira en milljón króna í mánaðartekjur, og níu prósent feðra og þrjú prósent mæðra voru með tekjur á bilinu 750 þúsund til milljón.
Gagnast fæstum mæðrum
Í október í fyrra voru hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækkaðar úr 370 þúsund krónum í 500 þúsund krónur. Miðað er við að fólk fái 80 prósent launa sinna, en þó að hámarki þessa upphæð. Stærstur hluti mæðra, eða um 80 prósent þeirra, er ekki með 500 þúsund krónur á mánuði svo hækkunin gagnast þeim ekki.
Starfshópur sem Eygló Harðardóttir skipaði þegar hún var félagsmálaráðherra á síðasta kjörtímabili lagði það til að fyrstu 300 þúsund krónurnar af tekjum fólks yrðu óskertar, samhliða tillögum sínum um hækkun á hámarksgreiðslum. Þær tillögur hafa ekki orðið að veruleika, þótt hámarksgreiðslurnar hafi verið hækkaðar. Núverandi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á að hækka hámarksgreiðslurnar í skrefum á þessu kjörtímabili.